Tveir af fjórum hluthöfum súkkulaðigerðarinnar Omnom hafa selt hluti sína í fyrirtækinu, en heimildir ViðskiptaMoggans herma að ágreiningur um framtíðarstefnu fyrirtækisins hafi ráðið ákvörðun þeirra.
Þannig munu þeir Karl Viggó Vigfússon, bakari og konditormeistari, og André Úlfur Visage hönnuður hafa selt hluti sína til annarra hluthafa í fyrirtækinu. Karl Viggó átti 20% hlut í Omnom og André Úlfur átti 10%. Aðrir eigendur fyrirtækisins eru Kjartan Gíslason, sem á 20% hlut í fyrirtækinu, og félagið 7Ó ehf. sem á helming hlutafjár. Það félag er að fullu leyti í eigu Mörtu Nowosad, en hún er eiginkona Óskars Þórðarsonar, framkvæmdastjóra félagsins og eins stofnanda þess.
Ekki hafa fengist upplýsingar um á hvaða verði hlutir þeirra Kjartans Viggós og André Úlfs voru, né heldur hvernig hlutir þeirra skiptast milli kaupenda.
Omnom var stofnað árið 2013 og hóf framleiðslu á súkkulaðivörum sínum í húsnæði á Austurströnd á Seltjarnarnesi sem áður hýsti bensínstöð Skeljungs. Það var svo í upphafi þessa árs sem fyrirtækið flutti í stærra húsnæði á Hólmaslóð á Granda og við það margfaldaðist framleiðslugeta þess. Umbúðir þær sem félagið hefur valið vörum sínum hafa vakið töluverða athygli, en hönnuður þeirra er André Úlfur.
Á síðasta ári skilaði félagið 6,6 milljóna hagnaði en á árinu 2014 nam hann tæpum tveimur milljónum króna. Samkvæmt ársreikningi fyrir síðasta ár var eigið fé félagsins ríflega 9,6 milljónir en skuldir þess námu 73,3 milljónum króna.