„Mér sýnist að þarna sé verið að mynda enn eitt bandalagið um óbreytt ástand,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um skipun samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Í hópnum eiga neytendur þrjá fulltrúa, ráðuneytið fimm, Bændasamtökin þrjá og atvinnulífið einn.
Í búvörulögum, sem samþykkt voru á Alþingi í september, er kveðið á um að skipaður verði samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga. Í lögunum er jafnframt kveðið á um að tryggja skuli aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og að vinnu hópsins skuli lokið eigi síðar en í árslok 2018.
Í fyrstu áttu sjö manns að sitja í samráðshópnum. Félag atvinnurekenda gagnrýndi þá þegar harðlega að ekki hefði verið óskað eftir tilnefningu frá því í hópinn. Þótti félaginu það skjóta skökku við þar sem það hefði verið leiðandi í umræðu um aukið frelsi í landbúnaði.
Síðan gerðist það að ASÍ og BSRB neituðu að skipa fulltrúa í hópinn nema að hvor samtökin fyrir sig fengju sinn fulltrúa.
Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðarráðherra, varð við þessum kröfum og fá samtökin nú hvorn sinn fulltrúann í samráðshópnum sem loks var skipaður í gær, mánuði síðar en lögin gerðu ráð fyrir.
En í hópnum sem nú hefur verið skipaður sitja tólf fulltrúar, þar af fimm sem skipaðir eru af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá er fulltrúum Bændasamtakanna einnig fjölgað. „Þetta er að mínu viti gert til að halda valdajafnvæginu, svo að þeir sem gerðu hina alræmdu búvörusamninga hafi meirihluta í hópnum,“ segir Ólafur.
Niðurstaðan er því sú að neytendur eiga þrjá fulltrúa, ráðuneytið fimm, Bændasamtökin þrjá og atvinnulífið einn.
„Við teljum þetta nú ekki fallið til þess að ýta undir þetta þjóðarsamtal sem formaður atvinnuveganefndar boðaði,“ segir Ólafur. „Mér sýnist að þarna sé verið að mynda enn eitt bandalagið um óbreytt ástand.“
Í samráðshópnum eiga sæti: