Katrín Júlíusdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), sem eru heildarsamtök fjármálafyrirtækja á Íslandi
Katrín útskrifaðist með MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2016 og nam mannfræði við Háskóla Íslands frá 1995 til 1999, að því er segir í tilkynningu.
Katrín var alþingismaður frá 2003 til 2016, þar af iðnaðarráðherra frá 2009 til 2012 og fjármála- og efnahagsráðherra frá 2012 til 2013. Katrín var varaformaður Samfylkingarinnar frá 2013 til 2016 og í framkvæmdastjórn flokksins frá 2000 til 2003.
„Ég er mjög spennt fyrir að takast á þetta nýja og krefjandi starf. Í störfum mínum í stjórnmálum í gegnum tíðina hefur það alltaf verið mér mikið kappsmál að vinna að sameiginlegri sýn og ná árangri í þeim verkefnum sem liggja fyrir. Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja er sífellt að breytast og ég hlakka til að fá að taka þátt í því að koma að verkefnum sem tengjast þeirra hagsmunamálum,” segir Katrín í tilkynningunni.
Samtök fjármálafyrirtækja eru heildarsamtök fjármálafyrirtækja á Íslandi. Tilgangur og meginverkefni samtakanna eru að vera málsvari fjármálafyrirtækja í hagsmunamálum þeirra og stuðla að því að starfskilyrði þeirra séu samkeppnishæf. SFF gæta hagsmuna aðildarfélaga samtakanna gagnvart stjórnvöldum, eftirlitsstofnunum, almenningi og atvinnulífi og aðstoða þau við að byggja upp heilbrigt og traust fjármálakerfi