Björn Ingi kaupir Birtíng

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórnir Pressunnar ehf. og Birtíngs ehf. hafa komist að samkomulagi um kaup Pressunnar á öllum hlutum í Birtíngi útgáfufélagi ehf. af SMD ehf., Prospectus ehf. og Karli Steinari Óskarssyni. 

Birtingur útgáfufélag ehf. verður sjálfstætt dótturfélag Pressunnar ehf. og heldur áfram núverandi starfsemi sinni í óbreyttri mynd. Meginmarkið með samrunanum er hagræðing í rekstri félaganna og samþætting skylds reksturs. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Birtíngur er helsta tímaritaútgáfa landsins. Meðal tímarita útgáfunnar eru Vikan, Nýtt líf, Mannlíf, Séð og heyrt, Gestgjafinn, Hús og híbýli, Júlía og Sagan öll.

„Með samrunanum mun Pressan ehf. efla útgáfustarfsemi sína og samþætta rekstur Birtíngs útgáfufélags ehf. við núverandi útgáfu sína. Karl Steinar verður áfram framkvæmdastjóri og Björn Ingi Hrafnsson útgefandi,“ segir í tilkynningunni.

Samkeppniseftirlitinu og Fjölmiðlanefnd hafa verið send erindi um samrunann, eins og lög gera ráð fyrir, og eru viðskiptin gerð með fyrirvara um samþykki eftirlitsstofnana. 

„Markmið samrunans er að mynda stærra og öflugra fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði sem er betur í stakk búið til að takast á við breyttar aðstæður á markaði hér á landi og mæta síharðnandi samkeppni við aðra fjölmiðla, ekki síst erlenda,“ segir í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir að sameiginleg velta Pressunnar og tengdra félaga árið 2017 verði um tveir milljarðar króna. Starfsfólk samstæðunnar verður vel á annað hundrað, en starfsstöðvar eru í Kringlunni, Garðabæ, Ármúla og Skeifunni.

Í samtali við mbl.is sagðist Björn Ingi ekki ætla að tjá sig frekar um kaupin fyrr en eftir að þau væru samþykkt af eftirlitsstofnunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK