Íslendingar virðast hafa tekið ástfóstri við nýjan verslunardag sem er kallaður svarti föstudagurinn (e. black Friday), en fjölmargar verslanir auglýstu í gær stórlækkað verð á fjölda vörutegunda. Samkvæmt kortaveltutölum frá Valitor jókst salan á svarta föstudeginum um 21,4% milli ára og því ljóst að dagurinn er að verða ört vaxandi verslunardagur hér á landi.
Undanfarna daga auglýstu kaupmenn duglega hvert tilboðið á fætur öðru og sáust afsláttarkjör upp í 70% á völdum vörum. Algengt var að verslanir væru með um 20% afslátt af öllum vörum eða hærri afslátt af völdum vörum. Þessi siður að bjóða ríflega afslætti á þessum degi kemur frá Bandaríkjunum þar sem föstudagurinn eftir þakkargjörðahátíðina er orðinn að einum mesta verslunardegi ársins.
Nokkrar Evrópuþjóðir tóku upp þennan sið fyrir nokkrum árum síðan og í fyrra mátti sjá auglýsingar frá kaupmönnum hér á landi þar sem minnst var á svartan föstudag.
Samkvæmt tölum frá Valitor byrjaði verslun strax um miðnættið, en einhverjar verslanir opnuðu strax þá. Þá var einnig nokkur fjöldi sem opnaði snemma um morguninn og á tölum Valitor má sjá að fljótlega eftir klukkan 9 tekur salan við sér og heldur áfram að aukast alveg fram til fimm um daginn. Þá tekur hún að lækka, en þrátt fyrir það er áfram talsverð sala allt fram á miðnætti, en fjöldi verslana var með opið þangað til.
Ef horft er á hvert klukkustundabil jókst salan frá í fyrra á öllum bilum nema milli 2 og 3 um nóttina.
Fjöldi kortafærsla hjá Valitor jókst um 21% milli ára og veltan fór upp um 21,4%. Bæði í ár og í fyrra er 18% veltunnar frá netverslun og 82% frá verslunum. Samkvæmt tölum frá Bretlandi er netverslun mun meiri þar en hér á landi, en 57% veltunnar í gær var í gegnum netverslun.
Það skal tekið fram að í báðum gröfunum frá Valitor er ekki að finna nafntölur yfir sölu heldur lýsa þau hlutfallsbreytingu milli ára.