Vífilfell hf., sem framleiðir og selur meðal annars Coca-Cola-gosdrykkinn hér á landi, hefur breytt um nafn og mun frá og með deginum í dag heita Coca-Cola European Partners Ísland ehf. Breytinganna mun helst verða vart á bréfsefni og í opinberum gögnum, en munu ekki hafa áhrif á daglega starfsemi, að því er fram kemur í tilkynningu. Þótt félagið taki upp nýtt nafn verður félagið áfram á sömu kennitölu og virðisaukaskattsnúmeri og áður.
Forsaga nafnabreytingarinnar er sú að 28. maí síðastliðinn var Coca-Cola European Partners plc (CCEP) stofnað eftir sameiningu Coca-Cola Enterprises Inc., Coca-Cola Iberian Partners SA og Coca-Cola Erfrischungsgetränke svo úr varð stærsta sjálfstæða framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtæki Coca-Cola í heimi, sé miðað við tekjur. Þann 29. júlí keypti hið sameinaða fyrirtæki CCEP svo Vífilfell sem varð við það hluti af samsteypunni.
Hluti af innleiðingarferli CCEP er að samræma öll nöfn fyrirtækja innan samsteypunnar, en þau starfa á 13 mörkuðum. Fyrir lok þessa árs munu öll fyrirtæki undir hatti CCEP fá nafnið Coca-Cola European Partners auk þess sem við bætist nafn landsins sem fyrirtækið starfar í.
Saga Vífilfellsnafnsins er samofin sögu Coca-Cola hér á landi og nær aftur um næstum 75 ár. Í tilkynningunni segir að starfsmenn hér á landi muni áfram leitast við að halda Vífilfellsnafninu í heiðri.