Skattamálin eru sögð hafa verið meðal þess sem strandaði á í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fimm sem var slitið á miðvikudaginn. Vinstri grænir hafa talað fyrir breytingum á skattakerfinu, m.a. til þess að velta skattbyrði af lág- og millitekjuhópum yfir á hátekjuhópa og hefur því nú verið haldið fram að forystusveit Viðreisnar hafi ekki getað samþykkt þær hugmyndir.
Þrír skattflokkar voru ítrekað nefndir á nafn í umræðunni síðustu daga þegar að stjórnarmyndunarviðræður flokkanna fimm stóðu enn yfir, þ.e. auðlegðarskattur, hátekjuskattur og fjármagnstekjuskattur. En hvað þýða þessir skattar og hvert á að vera hlutverk þeirra?
Auðlegðarskattur var lagður á gjaldárin 2010-2014. Hann var lagður á hreina eign framteljanda, þ.e. allar eignir fyrir utan skuldir og yfir ákveðnum viðmiðum.
„Auðlegðarskattur var í grunninn eignaskattur fyrst og fremst,“ segir Haraldur I. Birgisson, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, í samtali við mbl.is. „Það má ekki gleyma því að við erum með fleiri eignaskatta, fasteignagjöld eru til dæmis ekkert annað en eignaskattur. Þá eru stimpilgjöld annað form af eignarskatti, þ.e. skattur sem er tekinn af flutningi eigna milli aðila.“
Auðlegðarskattur var lagður á sem tímabundin aðgerð árið 2009. Þegar að auðlegðarskatturinn rann sitt skeið var skatthlutfallið 1,5% og hafði þá hækkað um 0,25% frá því að hann var settur á.
Árið 2013 greiddu 6.534 aðilar auðlegðarskatt, alls um 6,2 milljarða króna.
„Auðlegðarskatturinn hafði það í för með sér að hann lagðist þyngst á þá aðila sem höfðu um árabil greitt niður skuldir og safnað eignum til efri ára. Á meðal greiðenda var fólk sem var komið á þann stall en hafði samt litlar eða engar launatekjur til að standa undir skattgreiðslunni. Því var jafnvel verið að ganga á sparnað sem fólk hafði samviskusamlega lagt fyrir í áraraðir. Þá var skatturinn lagður á eignir óháð þeim tekjum sem eignirnar sköpuðu og óháð því að þær tekjur hefðu þegar verið skattlagðar,“ segir Haraldur. „Auðlegðarskatturinn var því að mörgu leyti ósanngjarn skattur.“
Hann segir vissulega til dæmi um eignaskatta í öðrum löndum en það séu dæmi um að íbúðahúsnæði og eignir af þeim toga séu þeim undanþegnar og tekið tillit til eignaþáttarins að því leyti.
Aðspurður um tilgang auðlegðarskatts á sínum tíma segir Haraldur hann hafa líklega verið tvenns konar.
„Hins vegar að ná tímabundið tekjum í ríkissjóð sem stóð höllum fæti á þeim tíma. Þess má geta að farið var með auðlegðarskattinn fyrir dómstóla þar sem Hæstiréttur staðfesti að löggjafinn hefði verulegt svigrúm til að leggja á skatta. Hins vegar horfði Hæstiréttur til stöðu ríkissjóðs á þeim tíma sem skatturinn var settur á og að skattinum væri markaður tiltekinn gildistími.“
Haraldur segir að hinn tilgangurinn, sem er meira í umræðunni núna, sé tekjujöfnun, þ.e. að færa skattbyrðina. „Það er hægt að líta svo á að með auðlegðarskatti sé verið að færa eignir frá einum aðila til annars í gegnum skattkerfið. En það fer bara eftir því hvernig maður horfir á skattkerfið. Sumir líta á skattkerfið sem tekjujöfnunartæki, til dæmis með þrepaskiptum tekjuskatti. Síðan eru aðrir sem vilja fremur nota það sem skilvirkt tekjuöflunartæki með lágum skattprósentum, breiðum skattstofni og litlum sem engum undanþágum. Þetta eru tveir pólar sem eiga það til að takast á.“
Sérstakur hátekjuskattur upp á 8% var lagður á hér á landi frá 1. júlí 2009 til ársloka 2009 en fyrir það var hér flatt skattkerfi í launaskatti, ein skattprósenta yfir alla. Árið 2010 var hátekjuskattur tekinn upp og leystur af hólmi með þremur launatekjuskattþrepum. „Það má því segja að efsta þrepið sé hinn eiginlegi hátekjuskattur,“ bendir Haraldur á.
Katrín Jakobsdóttir, sem var með stjórnarmyndunarumboðið þangað til í morgun, hefur talað fyrir svokölluðu hátekjuskattþrepi þar sem miðað væri við eina og hálfa milljón í mánaðarlaun.
„Í þessum efnum takast á sjónarmið, hvort þetta sé heppilegt, að með hverri krónu sem þú aflar færðu minna í þinn vasa. Það hafa verið uppi hugmyndir um að þetta hafi slæm áhrif á vinnuhvata. Það má líka setja þetta í samhengi við umræður um kjarasamninga, hvort það sé álíka skilvirk leið að lækka að einhverju leyti skatta en að hækka laun. En það fer allt eftir því hvar fólk lendir í þessum þrepum,“ segir Haraldur.
Fjármagnstekjuskattur er skattur sem lagður er á eignatekjur einstaklinga utan atvinnurekstrar, þ.e. vaxtatekjur, arð, söluhagnað og leigutekjur. Á fjármagnstekjur er ekki lagt útsvar og þær hafa engin áhrif á þrepaskiptingu tekjuskatts. Hins vegar teljast þær með öðrum tekjum til stofns við útreikning vaxtabóta og barnabóta.
Möguleg hækkun á fjármagnstekjuskatti er meðal þess sem bar á góma í umræðunni um stjórnarmyndunarviðræður flokkanna fimm sem upp úr slitnaði fyrr í vikunni.
Fjármagnstekjuskattur var hækkaður upp í 20% frá og með 1. janúar 2011 og hafði þá hækkað úr 10% á tveimur árum. Hann var tekinn upp árið 1997 og var lengst af 10%.
„Umræða um hækkun á fjármagnstekjuskatti snýst að miklu leyti um að samræma skattlagningu fjármagns, þ.e. arðs, vaxta til dæmis, og síðan launa,“ segir Haraldur. „En það verður að hafa í huga þessir tveir skattstofnar eru töluvert ólíkir og það réttlætir ólíka nálgun hvað skattlagningu varðar.“
Þá segir Haraldur að það megi hafa það í huga, horfandi á arðinn, að þar eru tekjur sem þegar er búið að skattleggja inni í félögunum.
„Fyrirtæki sem skilar 100 krónum í hagnað greiðir tuttugu krónur af þeim hagnaði í skatt. Ef 80 krónur eru greiddar í arð þá þarf viðkomandi að greiða 16 krónur í skatt af þeim arði. Þá verður skattlagningin í raun 36 krónur og við komin töluvert nær launaskattlagningu. Þá má ekki gleyma því að skatturinn er brúttóskattur, þ.e. hann er greiddur bæði af raunávöxtun og verðbólguhækkunum sem eru ekki raunverulegar tekjur. Auk þess eru vaxtagjöld ekki heldur heimiluð til frádráttar. Það var meginástæðan fyrir því upphaflega að skatthlutfallið væri 10%. Það þarf því að horfa á heildarmyndina þegar verið er að bera saman fjármagnstekjuskatt og launaskatt,“ segir Haraldur.
Hann segir að það hafi líka verið bent á að fjármagntekjuskatturinn sé kvikari skattstofn. „Við getum haft bein áhrif, jákvæð og neikvæð, á aukna efnahagsstarfsemi með því að draga úr hvötum til sparnaðar og fjárfestingar með því að hækka skattinn, eða hvetja til frekari sparnaðar og fjárfestingar með að lækka skattinn,“ segir Haraldur og bætir við að sparnaður Íslendinga í sögulegu samhengi mætti vera hærri. Þá hefur vantað upp á fjárfestingar upp á síðkastið.
„Eitt markmið sem hefur verið nefnt í þessu samhengi er að jafna skatthlutföllin meðal annars til að koma í veg fyrir það að einstaklingar stofni atvinnurekstur utan um sjálfan sig og færi þá að einhverju leyti launatekjur yfir í fjármagnstekjur. Hætti að borga sér laun borgi bara fjármagnstekjur. Það er náttúrulega ekki þannig því hér eru reglur um reiknað endurgjald sem gera það að verkum að viðkomandi þarf að greiða sér ákveðin laun í skattalegu tilliti, sem eiga að vera jafnhá og til ótengds aðila, þótt hann sé með félag,“ segir Haraldur og bætir við að það þrengi einhvers konar svigrúm til þess að færast undan launaskattlagningu.
„Þetta er skilvirkara og markvissari leið til að sporna við því en að hækka skattinn flatt á allar fjármagnstekjur. Þá má ekki gleyma því að fjármagnstekjuskatturinn hefur verið hækkaður töluvert undanfarin sex ár.“