Finna fyrir auknum áhuga á íslenskum jólum

Sífellt fleiri ferðamenn ákveða að vera á Íslandi um jólin.
Sífellt fleiri ferðamenn ákveða að vera á Íslandi um jólin. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hótel borgarinnar finna fyrir aukningu á bókunum um jólin og lítur út fyrir að Reykjavík verði full af erlendum ferðamönnum yfir hátíðirnar. Þá er uppbókað á mörgum stöðum yfir áramótin, eins og oft áður.

„Við vorum fullbókuð í fyrra og það verður fullbókað í ár,“ segir Bjarni Hákonarson, hótelstjóri Hótels Óðinsvéa, í samtali við mbl.is spurður um bókanir á hótelinu yfir jól og áramót. Hann segir eitt og eitt herbergi laust á stangli einhverja daga 22. desember til 2. janúar eins og staðan er núna en gerir ráð fyrir því að þau muni bókast fljótlega.

Bjarni segir að hótelið sé búið að vera fullbókað á þessum tíma mörg ár í röð, sérstaklega yfir áramótin. „Þá er fjöldi manns á biðlista eftir borði á Snaps, veitingahúsi hótelsins, á gamlárskvöld,“ segir Bjarni en Snaps lokar á aðfangadag, jóladag og nýársdag. Hann segir mikilvægt að jóla- og áramótagestir sýni forsjálni og hótelin veiti þeim upplýsingar um afgreiðslutíma veitingastaða yfir hátíðirnar svo fólk geti fengið að borða.

„Við erum búin að senda öllum sem eiga bókað herbergi yfir jól og áramót póst og benda þeim á að vera vakandi og bóka sér sæti á einhverjum veitingastað til þess að fá að borða. Við hjálpum til við það. Annars getur orðið snúið að fá borð.“

Áramótin hafa lengi verið vinsæll tími fyrir erlenda ferðamenn til …
Áramótin hafa lengi verið vinsæll tími fyrir erlenda ferðamenn til þess að koma til Íslands. Nú eru jólin orðin það sömuleiðis. mbl.is/Styrmir Kári

Sambærileg nýting á Suðurlandi

Aukning hefur orðið á bókunum yfir jólin hjá hótelum í rekstri Icelandair-hótela en áramótin hafa verið fullbókuð í nokkur ár og verður engin breyting þar á í ár. Hildur Ómarsdóttir, forstöðumaður markaðsmála og viðskiptaþróunar Icelandair Hotels, segir í samtali við mbl.is að nýting hafi verið mjög góð það sem af er vetrar og er desember, jól og áramót þar með talin, mjög vel bókaður.

 „Nýjasta hótel félagsins, Canopy Reykjavík, hefur verið nánast fullbókað frá opnun 1. júlí, sem sýnir okkur jafnframt að ferðamenn hafa ekki síður áhuga á betri gistivalmöguleikum og eru tilbúnir að borga hærra verð og þiggja betri þjónustu. Þetta eru mikilvæg skilaboð til ferðaþjónustu hér á landi og þeirra sem vinna að áframhaldandi uppbyggingu um að við eigum að horfa til þess að auka almennt gæði og afkomu ferðaþjónustu með hækkun verðlags, í stað þess að einblína eingöngu á fjöldatölur,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Hún segir landsbyggðarhótelin ekki enn hafa náð sömu toppnýtingu yfir vetrarmánuði líkt og í Reykjavík, nema þá helst á Suðurlandi þar sem nýtingin er að verða sambærileg við nýtinguna í Reykjavík allt árið um kring.

Allir veitingastaðir Icelandair Hotels í Reykjavík verða opnir um jól og áramót og að sögn Hildar bjóða þeir gestum hótelanna upp á frábæra íslenska hátíðarupplifun. Veitingastaðirnir sem erum ræðir eru VOX Restaurant á Hilton hótelinu við Suðurlandsbraut, Satt á Reykjavík Natura, Slippbarinn á Reykjavík Marina og Geiri Smart á Canopy Reykjavík.

Nýjasta hótel Icelandair Hotels, Canopy Reykjavík, hefur verið nánast fullbókað …
Nýjasta hótel Icelandair Hotels, Canopy Reykjavík, hefur verið nánast fullbókað frá opnun 1. júlí. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrsta árið sem öll hótelin eru opin

„Áramótin hafa alltaf verið mjög vinsæl hjá okkur og í raun uppbókuð og sama er að gerast núna. En við erum að sjá töluverða aukningu í bókunum um jólin sem er mjög ánægjulegt,“ segir Eva Silvernail, rekstrarstjóri Center Hotels sem á og rekur sex hótel í miðborg Reykjavíkur.

Hún segir jólin hafa verið rólegri hjá hótelunum áður, en að það hafi breyst síðustu ár. Þetta eru fyrstu jólin sem öll hótel Center Hotels eru opin.

Center Hotels rekur þrjú veitingahús og verða þau öll opin yfir hátíðirnar, þ.e. loka ekki á aðfangadag, jóladag eða gamlárskvöld. Hún segir mikinn áhuga fyrir borðum og gerir ráð fyrir því að staðirnir verði fullir. Spurð hvort það taki á að þurfa að manna þessar vaktir segir hún það alltaf áskorun að fá fólk til að vinna á þessum tímum en að það sé eðlilegur hluti þess að vera í rekstri 365 daga ársins.

„Við erum heppin að vera með frábært fólk í vinnu og pössum að skipta þessu svolítið upp svo það séu ekki einhverjir að lenda í því að vinna alla rauðu dagana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK