Verslun á Íslandi býr við ímyndarvanda sem ætti að vera áhyggjuefni fyrir alla íslenska kaupmenn að sögn Margrétar Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra Pfaff og varaformanns rekstrarfélags Kringlunnar. Margrét tók þátt í pallborðsumræðum á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í morgun þar sem rætt var um samkeppnishæfni íslenskra verslana ásamt Þórarni Ævarssyni, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, Ólafi Arnarsyni, formanni Neytendasamtakanna og Jóni Björnssyni, forstjóra Festi.
Fyrri frétt mbl.is: Neytendur farnir að kjósa með fótunum
Margrét sagði að það væri engin spurning að það væri hagur í því fyrir íslenska kaupmenn að standa með neytendum. Sagði hún að í langan tíma hefði umræðan verið þannig að verið væri að alhæfa um verslun, að öll verslun sé léleg og skili ekki sínu. „Það er fullt af fólki að reka verslanir mjög illa en fullt af fólki sem gerir það mjög vel. Þessi ímynd verslunar í dag er eitthvað sem við ættum að hafa áhyggjur af,“ sagði Margrét.
Að mati Margrétar hafa fjölmiðlar ekki hjálpað til með ímyndina þar sem betra sé að skrifa um okurdæmi heldur en þar sem verðið er samkeppnishæft og jafnvel lægra en erlendis.
Aðspurður hvernig hægt sé að gera til þess að bregðast við þessari ímyndarkrísu sagði Jón að ansi margir kaupmenn væru að gera góða hluti. „Ég held að við þurfum fyrst og fremst að halda áfram að gera betur í vöruverði en ég held að íslenskir kaupmenn megi bæta sig í eðlilegum viðskiptaháttum við neytendur,“ sagði Jón og benti á að hér á landi þekkjast ennþá innleggsnótur.
„Ef neytandi kaupir vöru og vill ekki eiga hana á auðvitað bara að borga honum til baka. Sama má segja um gjafabréf. Þá áttu að geta keypt hvað sem er fyrir það, þetta eru bara peningar með loforði við að versla hjá ákveðnum aðila.“ Benti hann á að á sumum stöðum mætti ekki nota gjafabréf á útsölu og þá væru gjafabréf sem renna út og fyrnist. „Ég hef aldrei séð pening sem fyrnist,“ sagði Jón. „Ég held að svona viðskiptahættir séu líka hluti af því að kaupmenn eru ekki með traust neytandans.“
Sagði Margrét að eina leiðin fyrir kaupmenn til þess að vera samkeppnishæfa er að skulda engum og geta greitt hluti fyrirfram. Benti hún á að hún væri með umboð fyrir Sennheiser, vinsælustu heynartól landsins. Ákveðin heyrnartól kosta 59.900 í Pfaff en 460 evrur á heimasíðu Sennheiser sem eru tæpar 55.000 krónur. Í Þýskalandi er virðisaukaskatturinn 19% miðað við 24,5% hér og svo þarf að greiða 7,5% toll og flytja vöruna til landsins. „Þá er varan komin yfir 60 þúsund krónur í kostnað fyrir okkur,“ sagði Margrét og bætti við að hún teldi sína verslun alveg 100% samkeppnishæfa.
„En það er vegna þess að við skuldum ekki krónu. Allt sem ég fæ í hús á ég.“
Þar af leiðandi getur Pfaff fyrirframgreitt eiginlega allar vörurnar og fá út á það afslátt, yfirleitt 2-3%. „Það er eina leiðin til þess að vera samkeppnishæf, að skulda ekkert og geta greitt fyrirfram og fengið alla afslætti. Að öðru leyti sé ég ekki hvernig þetta væri hægt.“