„Við fögnum að sjálfsögðu öllum skrefum í átt að lækkun vaxta,“ segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, í samtali við mbl.is inntur viðbragða við ákvörðun Seðlabanka Íslands í morgun um að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig. Vextirnir eru nú 5%. Frosti segir ljóst að raunvaxtamunur hér á landi samanborið við nágrannaþjóðir Íslands sé umfram það sem þörf sé á.
„Við teljum jafnframt að það sé svigrúm til frekari vaxtalækkana. Ekki síst með hliðsjón af mikilli gengisstyrkingu. Stærsti óvissuþátturinn er staðan á vinnumarkaði og það er von okkar að stjórnvöld og samningsaðilar sýni ábyrgð og skynsemi og komist að sjálfbærri niðurstöðum í komandi samningalotum þannig að hægt sé að lækka vextina enn frekar.“
Hvað fjárlagafrumvarpið varðar segir Frosti að svo virðist sem mun meiri þrýstingur sé í áttina að auknum útgöldum fremur en auknum afgangi í rekstri ríkissjóðs. „Við myndum að sjálfsögðu vilja sjá fleiri talsmenn þess að greiða niður ríkisskuldir frekar en að auka á þær og auka þannig á þenslu í hagkerfinu og draga úr líkunum á því að ná vöxtum niður enn frekar.“