Opna nýtt og öflugra brugghús og ölstofu í Vestmannaeyjum

Bruggtækin sem The Brothers Brewery hefur notast við láta ekki …
Bruggtækin sem The Brothers Brewery hefur notast við láta ekki mikið yfir sér. Þau verða nú leyst af hólmi með nýrri tækjum.

Í upphafi næsta árs mun örbrugghúsið The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum fá ný bruggtæki til framleiðslu sinnar og um leið mun framleiðslugeta þess nær sexfaldast. Þá vinna forsvarsmenn fyrirtækisins að opnun nýs ölhúss þar sem gestum og gangandi mun gefast kostur á að kynnast afurðunum.

Jóhann Ólafur Guðmundsson er bruggari fyrirtækisins og einn af forsprökkum þess.

„Við tókum ákvörðun um að fjárfesta í þessum tækjum vegna þess að eftirspurnin eftir framleiðslunni hjá okkur hefur vaxið gríðarlega. Með nýju tækjunum gefst okkur einnig kostur á að setja bjórinn á flöskur og með því koma honum í sölu á börum og veitingahúsum sem ekki eru með bjórdælur, en hingað til höfum við aðeins selt framleiðsluna í kútum.“

Bræður byrja að brugga

Jóhann segist ekki hafa séð vinsældir framleiðslunnar fyrir og að í fyrstu hafi þetta aðeins verið gert til gamans.

„Við stofnuðum þetta ég og Kjartan Vídó og við drógum bræður okkar, Davíð og Hlyn, inn í þetta með okkur. Síðan hafa ákveðnar breytingar orðið á eignarhaldinu, Davíð er ekki lengur í hópnum en Hannes Kristinn Eiríksson er kominn í þetta með okkur og nú síðast fjárfestir sem hefur trú á verkefninu. Í fyrstu fórum við að brugga bjór í kjallaranum hjá mér. Þetta var árið 2013 en það var svo í árslok 2014 sem við fengum stærri græjur til framleiðslunnar. Ári síðar fórum við að huga að því að fá framleiðsluleyfi og í byrjun janúar síðastliðins hófum við framleiðslu á bjórnum fyrir Einsa Kalda hérna í Eyjum.“

Notast við hráefni úr Eyjum

Afurðir The Brothers Brewery hafa fengið mjög góðar viðtökur en hjá Einsa Kalda hafa 12 tegundir verið seldar almenningi. Síðastliðið sumar kynnti fyrirtækið bjórinn Togara á Bjórhátíð Íslands á Hólum, en þar koma saman flest íslensku brugghúsanna. Togarinn var valinn besti bjórinn af gestum hátíðarinnar.

„Þetta er algjört handverk hjá okkur og við höfum farið óhefðbundnar leiðir. Meðal annars höfum við notast við söl til framleiðslunnar sem eru tínd hér í fjörunni í Eyjum. Einnig höfum við notað kerfil, sem flestir álíta bara illgresi,“ segir Jóhann.

Framleiðslan verður í húsnæði sem fyrirtækið hefur tekið á leigu að Vesturvegi í Vestmannaeyjum, en þar verður einnig komið upp eins konar gestastofu og lítilli ölstofu.

„Við stefnum að því að sinna bruggun fram til tvö á daginn en eftir það verður starfsemin opin ferðamönnum og öðrum þeim sem vilja kynna sér fyrirtækið. Þetta verður því ákveðin viðbót við afþreyingarmöguleikana hér í Eyjum.“

Mögulega í Vínbúðirnar

Jóhann segir að á næsta ári sé ætlunin sú að auka framleiðsluna í 30 þúsund lítra og því ljóst að framleiðslugetan verður ekki nýtt nema til hálfs.

„Við viljum fara varlega af stað en við erum bjartsýnir á að vöxturinn haldi áfram. Allar áætlanir sem við höfum gert hingað til hafa sprungið eftir um tvo mánuði og það gæti allt eins gerst í þessu einnig.“

Spurður hvort vörur fyrirtækisins verði aðgengilegar neytendum í Vínbúðunum segir Jóhann það ekki víst.

„Fyrst viljum við mæta eftirspurn þeirra sem kallað hafa eftir vörunni en það gæti komið til greina. Við myndum þá helst vilja selja vöruna í Vínbúðinni hér í Eyjum þannig að ferðamenn sem hingað koma gætu nálgast vöruna en reglur ÁTVR bjóða ekki upp á slíkt. Fyrst verður varan að fara í prufusölu í ákveðnum búðum áður en hún getur komið á minni staðina. Þetta verður bara að koma í ljós.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK