Í gær úthlutaði borgarráð Reykjavíkur lóð í Vatnsmýri til Háskóla Íslands og Vísindagarða, en þar verða reistar nýjar höfuðstöðvar CCP og stærsta frumkvöðla- og nýsköpunarsetur landsins. Þetta kemur fram í vikulegum pistli borgarstjóra í dag.
Frétt mbl.is: Starfsemi CCP í Vatnsmýrina
Segir Dagur B. Eggertsson í pistlinum að um sé að ræða gamlan draum sem sé að verða að veruleika. CCP mun notast við um fjórðung húsnæðisins, en hinum verður ráðstafað til annarra sprotafyrirtækja og frumkvöðla. Segir Dagur að þar verði fyrirtækjum búnar kjöraðstæður í skapandi umhverfi. Þá er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum reitsins.
Alls er heimild til að reisa um 17 þúsund fermetra hús á lóðinni og segir Dagur að með því sé óhætt að segja að Vísindaþorpið í Vatnsmýrinni sé farið að taka á sig mynd. Áætlað er að framkvæmdir hefjist fljótlega á nýju ári og verði lokið innan þriggja ára.