Grunnhugmyndir að umbreytingu Skeifunnar voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði í lok nóvember og halda ráðgjafar nú áfram að vinna þær hugmyndir sem stefnt er að því að sýna hagsmunaaðilum og öðrum í mars. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að fjögurra stjörnu 300 herbergja hótel sem á að byggja á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar og sagt var frá í Morgunblaðinu í dag sé fyrsti áfanginn í því að endurhugsa og endurnýja Skeifuna sem var sett á dagskrá í nýju aðalskipulagi.
Fyrri frétt mbl.is: Nýtt 300 herbergja hótel á Grensásvegi
Dagur segir áætlanir um nýja hótelið áhugaverðar sérstaklega þegar það kemur að staðsetningunni. „Við höfum talað fyrir því að dreifa ferðaþjónustunni og hóteluppbyggingu betur og ekki hafa hana alla í miðbænum. Þetta eru greinilega jákvæð viðbrögð við því.“
Eins og fyrr segir verða hugmyndir um framtíð Skeifunnar kynntar í mars. Dagur segist hafa orðið var við mikinn áhuga hagsmunaaðila á svæðinu fyrir því að huga að breytingum.
„Þetta er náttúrulega frábært verslunarsvæði og verður það örugglega áfram,“ segir Dagur. „Við sjáum jafnframt fyrir okkur að þarna gæti verið íbúðir í bland, aðalskipulagið talar um 500 íbúðir en við teljum miðað við þessa frumgreiningu sem við höfum fyrir framan okkur væri hægt að fjölga þeim enn frekar og jafnvel verulega.“
Dagur segir þó ekki liggja á að breyta svæðinu. „Við erum ekki í neinum spreng þarna þó við viljum sjá þetta fara af stað. Við sjáum fyrir okkur að svæðið fái að umbreytast lífrænt. Þá er niðurstaðan oft skemmtilegri. Það er ekki verið að tala um að ryðja öllu burt og byggja nýtt heldur mun svæðið byggjast smáum skrefum eftir því sem áhugi á svæðinu er til. Það verður enginn píndur til að gera neitt heldur viljum við bjóða upp á þessa möguleika og skilgreina vel þá möguleika sem svæðinu fylgir.“
Dagur segist sjá fyrir sér að Skeifan verði eitt af lykilvæðum í nýjum þróunarás í Reykjavík. Hann fer frá Hlemmi, upp eftir Laugavegi og Suðurlandsbraut, meðfram Skeifu og upp í Elliðavog og Höfða. Meðfram því svæði gæti Borgarlínan, nýtt almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt komið. „Þannig að uppbygging á þessu svæði hangir mjög sterkt og vel saman við framtíðarsýn okkar um þróun borgarinnar,“ segir Dagur.
Honum líst vel á áætlanir um hótelið á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar en áætlað er að opna það sumarið 2019. „Hótel á þessu horni gengur prýðilega upp í það sem við erum að hugsa og ég á von á því að bæði upp með Grensásvegi og Suðurlandsbraut munum við sjá ný verkefni og uppbyggingu á næstu árum.“