Ákvörðun systranna stendur

Systurnar Guðrún og Jóhanna Kristjánsdóttir eru eigendur Systrasamlagsins. Þær segjast …
Systurnar Guðrún og Jóhanna Kristjánsdóttir eru eigendur Systrasamlagsins. Þær segjast sáttar í hjartanum yfir flutningunum. Eggert Jóhannesson

Kaffihúsinu Systrasamlaginu við Suðurströnd á Seltjarnarnesi verður lokað seinna í mánuðinum og verður opnað að nýju á Óðinsgötu 1. Ástæðan fyrir flutningunum tengist skipulagsmálum hjá Seltjarnarnesbæ og samþykktar frá árinu 2007 um að rífa húsið og gera þar bílakjallara. Vegna þeirrar samþykktar hefur bæjarfélagið ekki viljað leigja húsnæðið út nema til árs í senn og að sögn eigenda kaffihússins hefur það valdið því að viðhald á húsinu hafi setið á hakanum.  

Mikil óánægja er meðal íbúa Seltjarnarness og annarra viðskiptavina Systrasamlagsins og hefur m.a. verið hafin undirskriftasöfnun þar sem þess er óskað að kaffihúsið verði áfram á Nesinu.  

Urðu að taka ákvörðun

Guðrún Kristjánsdóttir, sem á Systrasamlagið ásamt systur sinni Jóhönnu Kristjánsdóttur hafði heyrt af undirskriftarlistanum og segist vera þakklát fyrir stuðninginn. „En við erum búin að búa undir þessum hamri í nokkurn tíma og urðum að taka ákvörðun,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. „Við erum sáttar í hjarta okkar yfir þessum flutningum.“

Hún segist finna fyrir mikilli samstöðu í hverfinu og hjá viðskiptavinum en fjallað var um málið í Fréttatímanum fyrir jól. „Hér er talað um þetta daginn út og inn. Hver einasti kúnni minnist á þetta og hér er búið að vera brjálað að gera.“

Systurnar eru búnar að vera í húsinu í þrjú og hálft ár. Þar hefur verið ýmiskonar starfsemi í gegnum árin, lengst af sjoppan Skari, en nú stendur að öllum líkindum til að rífa húsið, sem er um 50 fermetrar að stærð. „Samkvæmt öllu sem við höfum heyrt á að rífa húsið. Það er svolítið leiðinlegt, þetta er búið að vera hérna lengi og fólk man eftir húsinu í hinum ýmsu myndum,“ segir Guðrún.

Fá stærra rými og garð

Með nýja húsnæðinu við Óðinsgötu fá systurnar stærra rými, fara úr rúmum 50 fermetrum í 90 fermetra. „Við verðum með fleiri sæti og stærri búð sem er gott því það er nóg að gerast í þessum lífræna heimi,“ segir Guðrún en Systrasamlagið hefur verið kallað heilsuhof enda leggur kaffihúsið áherslu á lífrænar vörur og heilsuvörur.

Þá fylgir garður með eigninni á Óðinsgötu sem verður tekinn í notkun seinna á árinu. Hún segir systurnar þakklátar fyrir tímann á Seltjarnarnesi en að þær standi með ákvörðun sinni og séu bjartsýnar á framhaldið. „Við elskum Seltirninga og þökkum stuðninginn en þetta fer ekki lengra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK