Ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir rúmlega 90 milljarða árlega en umfangið samsvarar framlögum ríkisins til Landspítalans og allra heilsugæslustöðva samanlagt. Þetta kom fram á fundi Samtaka iðnaðarins um opinber innkaup í dag.
Þar kom fram að þrátt fyrir þann mikla kostnað sem ríkið leggur í kaup á vörum á þjónustu á ári hverju fari minna en helmingur af innkaupum ríkisins í gegnum útboð. Til að mynda er hlutfall útboða af heildarfjölda innkaupa hjá tölvu- og fjarskiptabúnaði hjá 160 stofnunum ríkisins aðeins 43%. Þegar það kemur að fjarskiptaþjónustu og hýsingu er hlutfallið 46% en aðeins 14% í hugbúnaðargerð vegna heimasíðu og gagnvirkni á vef. Hlutfall útboða þegar það kemur að raforku er 8% en 19% við kaup á þjónustu iðnaðarmanna og hugbúnaðarleyfa. Hlutfallið er hinsvegar aðeins 1% í kaupum á almennri rekstrarráðgjöf.
Bent var á að Samráðsvettvangur um aukna hagsæld hafi gert ráð fyrir að árlegur sparnaður ríkisins gæti numið hátt í 10 milljörðum króna á ári með breyttu fyrirkomulagi í opnum innkaupum. Ef að sundurliðuð innkaup ríkisins á vörum og þjónustu árið 2013 eru skoðuð má sjá að ríkið gæti sparað allt að 20% í ákveðnum flokkum með breyttu fyrirkomulagi miðað við reynslu annarra ríkja.
Sparnaðurinn gæti til dæmis verið 900 milljónir á kaupum á lyfjum og heilbrigðisvörum og 1,7 milljarður á sérfræðiþjónustu miðað við útgjöldin 2013. Samanlagður þessara tveggja liða var 28 milljarðar árið 2013.
Meðal þeirra sem tóku til máls var Theódóra Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartar framtíðar og formaður bæjarstjórnar Kópavogs. Sagði hún að opinber innkaup eiga að vera stjórntæki til að ná fram hagkvæmari rekstri, trausti og bættri hegðun. Theodóra fór yfir opinber innkaup hjá Kópavogsbæ og hvernig fyrirkomulag þeirra hefur þróast. Í dag er innkauparáð og innkaupastefna hjá Kópavogsbæ en jafnframt opið bókhald sem leiðir til gegnsæjar stjórnsýslu að sögn Theódóru.
Benti hún á að Kópavogsbær hafi verið fyrsti opinberi aðilinn til þess að opna bókhaldið og sagði það bæði stuðla að bættum stjórnsýsluháttum og fleiri útboðum en dragi jafnframt úr hygli stjórnmálamanna til tengdra aðila og geti almennt dregið úr líkum á spillingu. Kallaði hún opið bókhald „stórt skref í átt að opnari og gagnsærri stjórnsýslu.“