Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's hefur fallist á að greiða tæplega 864 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 100 milljarða íslenskra króna, í sáttagerð við bandarísk yfirvöld vegna uppblásins mats fyrirtækisins á skuldabréfavafningum fyrir heimskreppuna 2008.
Samkomulagið er á milli Moody's Investors Services, Moody's Analytics og móðurfélagsins Moody's Corporation og 21 ríkis og dómsmálaráðuneytisins.
Bandarísk yfirvöld sökuðu matsfyrirtækið um að hafa blásið út lánshæfismat sitt á skuldabréfum sem voru hluti af skuldabréfavafningum á fasteignamarkaði sem tröllriðu fjármálamörkuðum fyrir hrunið 2008.
Matsfyrirtækið Standard and Poor's samþykkti að greiða 1,37 milljarða Bandaríkjadala, 157 milljarða króna, í sekt árið 2015 fyrir að hafa villt fyrir fjárfestum um gæði skuldabréfavafninganna. Samningarnir við matsfyrirtækin eru afrakstur margra ára rannsóknarvinnu á vegum dómsmálaráðuneytisins.