Ísland er í fjórða sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir lönd með mestan jöfnuð. Ísland er jafnframt það land sem hefur hækkað mest á listanum undanfarin fimm ár samkvæmt samantekt ráðsins ásamt Ísrael og Nýja-Sjálandi.
Norðurlöndin eru áberandi á listanum en Noregur trónir á toppnum með sín „háu lífsgæði, árangursríkt velferðarkerfi og lágan ójöfnuð,“ eins og segir í samantektinni. Þá er talað um sterkan félagslegan hreyfanleika, lítil atvinnuleysi og hátt hlutfall kvenna á vinnumarkaðinum.
Lúxemborg og Sviss eru í öðru og þriðja sæti en Ísland því fjórða eins og fyrr segir. Þar á eftir koma Danmörk, Svíþjóð og Holland og svo eru Nýja-Sjáland og Ástralía í áttunda og níunda sæti. Austurríki er síðan í því tíunda.
Þegar að skýrslan er skoðuð nánar má sjá að á Íslandi er atvinnuleysi minnst hjá löndunum 30 sem fjallað er um í skýrslunni og þá er fátækt minnst hér á landi sömuleiðis. Þegar það kemur að aðgengi að menntun er Ísland í 17. sæti en því sjöunda þegar litið er að gæði menntunarinnar. Þá eru Íslendingar í 23. sæti þegar litið er á framleiðni.