„Ég verð að segja að greiðslur af þessu tagi eru auðvitað alveg úr takti við íslenskan veruleika,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra um fregnir af því að nokkrir lykilstjórnendur í slitabúi Glitnis hafi tryggt sér 1.500 milljóna króna bónusgreiðslur.
Í Fréttablaðinu í dag er greint frá háum bónusgreiðslum sem stjórnendur eiga rétt á eftir að Glitnir greiddi 99 milljónir evra til skuldabréfaeigenda. En áður höfðu 640 milljóna króna bónusgreiðslur verið greiddar til Páls Eiríkssonar og Steinunnar Guðbjartsdóttur.
Benedikt tekur fram að slitabúin heyri ekki undir sitt ráðuneyti og því sé einungis um sína persónulegu skoðun að ræða. Hann segir þó að greiðslur af þessu tagi sýni vel hvað gerist í málum af þessu tagi.
„Maður sér það oft að skiptastjórar taka sér mjög há laun fyrir sína vinnu. Ég held að það væri ástæða til þess að menn reyndu að skoða það og kortleggja það og athuga hvort eitthvað er hægt að gera í því til að stemma stigu við því að menn séu í svona sjálftöku,“ sagði Benedikt í samtali við mbl.is á Alþingi í dag.