Skáldsaga George Orwell, 1984, er komin í fyrsta sæti topplista bóksölu Amazon, 68 árum eftir að hún kom út. Spurn eftir bókinni hefur aukist gríðarlega síðustu daga og er hún tengd við vangaveltur sérfræðinga um að ummæli Kellyanne Conway, helsta ráðgjafa Donald Trump, minntu á verk Orwell.
Samkvæmt frétt CNN er þó erfitt að meta tengslin milli innsetningarathafnar Trump á föstudaginn og umræðu um „aðrar mögulegar staðreyndir“ sem fór á flug eftir viðtal við Conway á sunnudaginn.
Þar varði hún Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúa forsetans, sem á fyrsta blaðamannafundi sínum í nýju embætti sagði fjölmiðla þá hafa birt rangar upplýsingar um mannfjöldann af ásettu ráði. „Þetta var stærsti áhorfendaskari við embættistöku frá upphafi, punktur!“ sagði hann.
Bandarískir fjölmiðlar segja þessar fullyrðingar rangar og spurði sjónvarpsmaðurinn Chuck Todd Conway hvort það hefðu ekki verið mistök að leyfa Spicer að segja ósatt á fyrsta blaðamannafundinum. Conway sagði að fullyrðingar Spicer hefðu ekki verið rangar en vék sér undan því að segja að þær væru réttar. Hún kallaði þær „aðrar mögulegar staðreyndir“ (e. alternative facts).
Skáldsagan 1984 segir frá heimi þar sem eftirlit stjórnvalda er gríðarlegt ásamt áróðri og hinu pólitíska tungumáli „newspeak“. Í bókinni er einnig sagt frá „Sannleiksráðuneytinu“ (e. Ministry of Truth) sem dreifir lygum.
75.000 eintök af 1984 voru sett í prentun í þessari viku. „Það er umtalsverð prentun og stærri en týpísk endurprentun á 1984,“ hefur CNN eftir talsmanni Penguin. Benti hann þó á að sala á 1984 aukist alltaf um leið og vorannir í skólum hefjast þar sem bókin er kennd á mörgum stöðum. En umfang endurprentunarinnar er meira en vanalega.
Samkvæmt Nielsen BookScan sem heldur utan um stærstan hlut bóksölu í Bandaríkjunum hefur 1984 selst í 47.000 eintökum síðan gengið var til forsetakosninga í Bandaríkjunum í nóvember. Það var aukning milli ára en á sama tímabili fyrir ári höfðu 36.000 eintök selst.
Sala á 1984 jókst einnig árið 2013 þegar gagnaleki Edward Snowden komst í heimsfréttirnar.
Neðar á lista Amazon eru bækur með svipuðu þema og 1984, þ.e. bækurnar „It Can‘t Happen Here“ eftir Sinclair Lewis og „Brave New World“ eftir Aldous Huxley.