Málefni Strætó voru til umræðu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í gær. Þar fól ráðið t.d. samgöngudeild að hefja undirbúning aksturs Strætó um Hverfisgötu og vísaði hugmyndum um kvöld- og næturstrætó til umhverfis- og skipulagssviðs og samgöngustjóra.
Stjórnarformaður Strætó bs., Heiða Björg Hilmisdóttir, segir að það hafi alltaf staðið til að færa aksturinn aftur upp á Hverfisgötu.„Núna erum við að skoða hvort það þurfi að færa allar leiðirnar þangað aftur,“ segir Heiða en leiðirnar sem aka nú Sæbraut eru nr. 1, 3, 6, 11 og 13.
Hún segir aksturinn hefjist að nýju í vor en honum var hætt fyrir nokkrum árum vegna framkvæmda á götunni. Fjórar stoppistöðvar verða settar upp á Hverfisgötu og að sögn Heiðu verða þær á svipuðum stöðum og þær voru áður. „Þetta mun bæta Strætósamgöngur við miðborgina töluvert,“ segir Heiða. Eins og staðan er núna aka strætisvagnar Sæbraut og Gömlu-Hringbraut til og frá Hlemmi og segir Heiða að með akstri á Hverfisgötu verði þjónustan töluvert betri, sérstaklega fyrir þá sem eru á leið í Þingholtin sem dæmi.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs var einnig kynnt minnisblað Strætó varðandi kostnaðar- og ábatamat vegna kvöld- og næturaksturs Strætó í Reykjavík. Heiða segist líta svo á að á meðan almenningssamgöngur loki áður en atvinnu- og menningarsvæði borgarinnar loki hvetur það til einkabílaeignar og -aksturs sem er í raun í andstöðu við stefnu Strætó.
„Við teljum líka að þetta sé öryggisatriði fyrir fólk sem þarf að koma sér úr miðborginni á kvöldin og næturnar,“ segir Heiða. Nefnir hún að Landspítalinn hafi jafnframt óskað eftir því að Strætó verði valkostur fyrir sína starfsmenn en eins og er hefur sá valkostur ekki hentað þeim sem byrja mjög snemma eða ljúka vöktum seint.
Heiða segir að kvöld- og næturstrætó hafi verið í skoðun í nokkurn tíma. „Það virðist vera eftirspurn, sérstaklega meðal ungs fólks,“ segir Heiða.
Í minnisblaði Strætó bs. kemur fram að til þess að fá grófa mynd af kostnaði við kvöldstrætó hafi verið gert ráð fyrir því að akstur hætti á slaginu 1 og geta þá vagnarnir verið staðsettir hvar sem er í hringnum. En þegar aksturinn verður settur endanlega upp í kerfinu munu leiðirnar þurfa að klára sinn hring og því myndu þær í raun og veru hætta á mismunandi tímum í kringum 1 eftir því hvenær það passar að klára hringinn. Sumar væru því að hætta klukkan 1 en aðrar seinna. Í minnisblaði Strætó kemur fram að ef gera á ráð fyrir að leiðir séu að aka síðustu ferð frá miðbænum um klukkan 1 myndi kostnaðurinn vera hærri en gert er ráð fyrir þar sem leiðirnar þyrftu þá að klára að aka í hverfin áður en þær hætta.
Þá er aðeins gert ráð fyrir að þær leiðir sem aka í dag fram til miðnættis muni fá lengdan þjónustutíma, þ.e. ekki þær leiðir sem aka t.d. einungis til klukkan 20 eða aka stopult yfir daginn. Þær leiðir sem fengju lengdan þjónustutíma yrðu þá leiðir 1-6, 11-15, 18, 24, 28, 35, 43 og 44.
Í minnisblaðinu segir að þá myndi kostnaðurinn við að lengja akstur til klukkan 1 mánudaga til laugardaga vera a.m.k. 120-130 milljónir króna. Líklega verður kostnaður þó meiri þar sem eðlilegra er að vagnar klári hringinn.
Þá er kostnaður við næturakstur reiknaður út miðað við 30 mínútna tíðni og hins vegar 60 mínútna tíðni frá klukkan 1:30 til 4 á föstudögum og laugardögum á leiðum 1-6. Í minnisblaðinu er gert ráð fyrir a.m.k. 60 milljóna króna kostnaði við 30 mínútna tíðni og a.m.k. 40 milljóna króna kostnaði við 60 mínútna tíðni. „Í þessu samhengi þarf einnig að huga að uppbyggingu á vaktakerfi vagnstjóra og gæti það haft áhrif á lokakostnað,“ segir í minnisblaðinu.
Heiða bendir á að enn þurfi að skoða nokkur atriði varðandi næturakstur, eins og fargjald og hvort það eigi að vera ein miðlæg stoppistöð í miðbænum, t.d. Lækjartorg, eða hvort leiðirnar eigi að aka sínar venjulegu leiðir. Þá þarf að huga að öryggismálum, bæði þegar kemur að vagnstjórum og farþegum.
Heiða segir margt óljóst varðandi aksturinn en bendir á að þetta sé aðeins gróft mat miðað við þessar forsendur. Möguleikinn á kvöld- og næturstrætó verður skoðaður áfram hjá Reykjavíkurborg og svo í samstarfi við önnur sveitarfélög í stjórn Strætó. Heiða segist vona að hægt verði að koma á betri þjónustu Strætó. „Við viljum vera borg sem býður upp á almenningssamgöngur sem valkost fyrir fólk,“ segir Heiða.
Á fundinum í gær var lagt fram minnisblað Strætó þar sem lagt er til að gerð verði skiptistöð í Elliðaárvogi sem myndi leysa Ártún af hólmi og tengja saman leiðir sem fara í vestur- og austurátt annars vegnar og norður- og suðurátt hins vegar. Heiða segir það framtíðarpælingar út frá Borgarlínunni og fyrirhugaðri uppbyggingu í Vogahverfinu. „Með því að færa skiptistöðina þangað niður eftir gætu skiptingar orðið einfaldari. Það er ekki búið að ákveða neitt en þetta gæti orðið gott fyrir þróun framtíðarinnar. Við erum bara að skoða lausnir núna.“