Samkeppni er af hinu góða fyrir neytendur og hefur hún í för með sér framfarir á mörkuðum. Lengi vel var engin samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði og þótti undarlegt að einhver hafi viljað keppa við Símann þegar að einokun á markaðinum var afnumin á sínum tíma. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Livar Bergþórsdóttur, forstjóra Nova, á fundi Félags atvinnurekenda, Áskorendurnir – fyrirtækin sem hristu upp í markaðnum, í gær.
Nova var stofnað í desember 2007 og verður því 10 ára í lok ársins. Fyrir rúmu ári, eða í lok árs 2015, náði Nova að verða stærsta farsímafyrirtæki landsins í fjölda viðskiptavina. „En við erum ennþá litla fyrirtækið,“ sagði Liv og benti á að velta Nova á síðasta ári hafi verið 8,4 milljarðar en fjarskiptamarkaðurinn er 55 milljarða markaður.
Liv fór yfir stofnun Nova og upphaf. Benti hún á að samkeppni á fjarskiptamarkaðinum hafði verið engin í 92 ár, eða frá stofnun Landsíma Íslands árið 1906 þar til að einokun á fjarskiptum var afnumin árið 1998 og fjarskiptafélagið Tal stofnað.
Liv tók þátt í stofnun Tals þegar að farsíminn var rétt að verða vinsæll. „En þá var enginn sem vildi fara í samkeppni,“ sagði Liv. „Við vorum spurð, ,Ætlið þið að keppa við Símann? Hvað ætlið þið að gera betur en þeir sem hafa verið í þessu í 90 ár?‘“
„Það er aldrei þannig að allir vilji versla við eitt og sama fyrirtækið. Það er ekki þannig að öllum henti sami hluturinn.“
Nova kom inn á markaðinn eins og fyrr segir árið 2007. Að sögn Livar var það ekki endilega til þess að hrista upp í markaðinum heldur að taka þátt í þeirri breytingu sem ljóst var að yrði. Á þessum tíma var 3G fjarskiptanet ekki byrjað á Íslandi en var hinsvegar komið á í flestum löndum Evrópu og benti Liv á að þá hafi verið fákeppni á fjarskiptamarkaðinum á Íslandi.
Það hefur breyst töluvert og er fjarskiptamarkaðurinn í dag samkeppnismarkaður að sögn Livar. „Ég held að flestir trúi því í dag að samkeppni sé af hinu góða fyrir neytendur og þýði framfarir,“ sagði Liv.
Með fleiri fjarskiptafélögum og aukinni samkeppni urðu ákveðnar framfarir í tækniþróuninni hér á landi. Nova gat hafið 3G væðinguna samhliða samkeppnisaðilum árið 2007 og í apríl 2013 hóf Nova 4G þjónustu, fyrst íslenskra símafyrirtækja. Þá varð Ísland líka með fyrstu löndum Evrópu sem tók kerfið upp en ekki með þeim síðustu eins og þegar að 3G kerfið var tekið upp.
Um mitt ár 2016 var markaðshlutdeild Nova 34,4%, Símans 33,7% og Vodafone 27,5%. Það hefur því mikið vatn runnið til sjávar, til að mynda frá árinu 2006 þegar að markaðshlutdeild Símans var 60% og Vodafone 40%. Þá voru GSM notendur á Íslandi 161.102 talsins en um mitt síðasta ár voru 3G/4G notendur á Íslandi 436.021 talsins. Í lok árs 1997, þegar að markaðshlutdeild Símans var 100% voru GSM notendur á Íslandi 40.866 talsins.
Eitt af því sem Nova er þekkt fyrir er fyrirkomulagið 0kr. Nova í Nova sem felst í því að viðskiptavinir Nova hringi og sendi SMS frítt í aðra viðskiptavini Nova. Sagði Liv að við stofnun hafi Nova þurft að gera eitthvað til þess að ná til sín viðskiptavinum. Ekki voru komnir nógu góðir snjallsímar til að fara á netið í þó að Nova biði upp á 3G kerfi. Þá voru sett á ný neytendalög 6 mánuðum fyrir opnun fyrirtæksins sem bannaði lengri þjónustusamninga en til 6 mánaða og að sögn Livar höfðu stjórnendur Nova hugsað allt sitt þjónustuframboð þannig.
„Þá þurftum við að hugsa eitthvað nýtt. Ef það hefði ekki verið fyrir þessi lög hefði 0 kr Nova í Nova aldrei orðið til,“ sagði Liv.
Liv lagði áherslu að að sama í hvaða geira, þá væru íslensk fyrirtæki að keppa í alþjóðlegri samkeppni. Benti hún á að ef Nova hefði ekki verið stofnað hefðu snjallforrit eins og WhatsApp og Viper, sem gera fólki kleift að eiga frítt í samskiptum í gegnum netið, orðið vinsælli hér á landi en þeir gerðu. Whats App er til að mynda með einn milljarð notenda en ekki vinsælt hér á landi. „Þeir urðu vinsælir á svæðum eins og Suður-Ameríku og Spáni þar sem kannski var ekki virk samkeppni og í boð að hringja á lágu verði.“
Liv talaði einnig um vinsældir Skype sem hún sagði enga tilviljun. „Lengi höfðu viðskiptavinir verið látnir blæða í það að hringja í vini og vandamenn erlendis. Þið munið mörg eftir því að það var bara hringt á jólunum og mjög stutt,“ sagði Liv.