Bandaríska stórverslunin Nordstrom hefur ákveðið að hætta sölu á vörumerki Ivönku Trump, dóttur Donalds Trump forseta Bandaríkjanna. Að sögn fyrirtækisins var það vegna minnkandi sölu sem ákveðið var að taka merkið úr verslunum keðjunnar.
„Á hverju ári tökum við um 10% af merkjunum úr sölu og fáum ný inn,“ hefur The Business Insider eftir talsmanni Nordstrom. „Í þessu tilviki var það vegna frammistöðu merkisins sem ákveðið var að taka það úr sölu.“
Í kjölfar kjörs Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna í nóvember hafa ákveðnir hópar kallað eftir því að fólk hætti að versla við búðir sem selja merki með Trump-nafninu.
Merki Ivönku Trump selur klæðnað, skó og töskur fyrir konur en því er haldið fram í frétt Business Insider að úrvalið á vörum frá henni hafi minnkað töluvert á vefsíðu Nordstrom síðustu vikur.
Shannon Coulter, sem hóf sniðgönguna á vörum Ivönku í haust hefur fylgst náið með vörum merkisins á vefsíðu Nordstrom síðustu mánuði. Fyrstu vikuna í desember var 71 vara frá forsetadótturinni í netverslun Nordstrom en í síðustu viku voru þær aðeins 26. Á miðvikudaginn voru þær níu.
Gagnrýnendur Trump-fjölskyldunnar og ríkisstjórnar nýja forsetans hafa kallað eftir því að fólk sniðgangi allar vörur merktar Trump merkinu. Sala Nordstrom á Trump-vörum vakti sérstaklega athygli eftir að einn viðskiptavinur skrifaði opið bréf til verslunarinnar í október. Þar var merki Ivönku sagt „eitrað“ og því var krafist að Nordstrom myndi hætta sölu á því.
Nordstrom svaraði á Twitter og sagðist ekki vera að taka pólitíska afstöðu með því að selja vörur Trump.