Ríkiskaup hafa samið við Icelandair og WOW air um afsláttarkjör á fargjöldum á alla áfangastaði þeirra auk þess sem samið var við WOW air um föst verð í ákveðinn fjölda farmiða til nokkurra valinna áfangastaða, s.s. London, Brussel, Kaupmannahafnar, Stokkhólms, Frankfurt og Parísar.
Samningarnir voru gerðir í kjölfar útboðs vegna kaupa ríkisstofnana á millilandaflugfargjöldum.
Útboðið var auglýst í desember sl. en markmið þess var að minnka ferðakostnað stofnana með því gera kaupendum kleift að skipuleggja flugferðir tímanlega og leita hagkvæmasta verðs hverju sinni, samkvæmt frétt á vef Ríkiskaupa.
„Boð Icelandair í afsláttarhlutann tryggir stofnunum 16% afslátt af grunnverði boðinna fargjalda í bókunarvélum og hjá WOW air er um að ræða 4,7% afslátt. Gera má ráð fyrir að heildarávinningur á samningstíma verði ríflega 100 milljónir króna.
Niðurstöður fastverðshluta samningsins sem gerður var við WOW air var 30% lægri en kostnaðaráætlun. Meðalverð á farmiða á valda áfangastaði er tæplega 16 þús. kr. með inniföldum sköttum og gjöldum auk 20 kg. farangurs- og 10 kg. handfarangursheimildar,“ segir á vef Ríkiskaupa.
Það er margt sem mælir með því að ríkið láti reyna enn frekar á samkeppni á þessum markaði með auknum sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana í náinni framtíð segir ennfremur á vef Ríkiskaupa..