Rekstri Fákasels í Ölfusi þar sem eina hestaleikhúsið hefur verið starfrækt í rúm þrjú ár hefur verið hætt. Auk hestasýninga gátu ferðamenn einnig komið í hesthúsið og fengið að kynnast íslenska hestinum í návígi. Veitingastaður auk verslunar er einnig á Fákaseli. Síðasti hópurinn af erlendum ferðamönnum sótti Fákasel heim á miðvikudaginn í síðustu viku.
„Reksturinn hefur ekki gengið sem skyldi. Það er fyrirséð að það verður tap á þessari fjárfestingu en hversu mikið vitum við ekki enn,“ segir Helgi Júlíusson, einn stjórnarmanna Fákasels ehf. Verulegt tap hefur verið á rekstrinum frá því hann hófst 1. febrúar árið 2014 og ekki eins margir gestir sótt Fákasel heim eins og ráðgert var í upphafi.
Fákasel ehf. á og rekur verslunina, veitingastaðinn og hestaleikhúsið. Sjóðurinn Icelandic Tourism Fund I slhf. (ITF I) á yfir 90% í Fákaseli ehf. en ITF I er meðal annars í eigu Icelandair Group, Landsbankans og nokkurra stærstu lífeyrissjóða landsins.
Nú stendur yfir fjárhagsleg endurskipulagning á Fákaseli ehf. Lagt hefur verið fram frumvarp að formlegum nauðasamningi fyrir Héraðsdóm Suðurlands.
„Fjárfestingin hefur ekki skilað hagnaði eins og til var ætlast,“ segir Helgi og bendir á að ekki sé alltaf á vísan að róa þegar fjárfest er í nýsköpun, hvorki í ferðaþjónustu né öðrum greinum.
„Þetta eru margir samverkandi þættir,“ segir Helgi spurður hvers vegna þetta hafi ekki gengið upp. Hann segir að þrátt fyrir að gripið hafi verið til ráðstafana í rekstrinum á tímabilinu hafi því miður ekki tekist að snúa stöðunni við.
„Þetta er sorglegt fyrir íslenska hestinn og synd að þetta hafi ekki gengið,“ segir Tómas Örn Snorrason hestamaður og einn þeirra sem hefur starfað í hestaleikhúsinu í Fákaseli frá upphafi. Hann bendir á að það sé alltaf betra að geta tekið á móti ferðamönnum og sýnt þeim íslenska hestinn í Fákaseli svo þeir stöðvi ekki á þjóðveginum og klappi hestum úti í girðingu þar sem hætta getur skapast.
Um 10 stöðugildi starfsmanna voru í Fákaseli ehf.