Þó svo að það gangi vel í ferðaþjónustunni á Íslandi í dag er sú velgengni langt frá því að vera trygging fyrir velgengi morgundagsins. Allir í greininni bera ábyrgð á umræðunni um ferðaþjónustuna hér á landi og mikilvægt er að rífa ekki góða umfjöllun niður. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, á fundi Íslandsstofu í dag en hann bar yfirskriftina „Er ímynd Íslands að breytast?“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar, opnaði fundinn. Þar greindi hún frá því að um mánaðamótin stæði til að opna sérstaka skrifstofu ferðamála innan ráðuneytisins. Við það fjölgar stöðugildum sem snúa einungis að ferðamálum í ráðuneytinu úr 1,5 í 5 og vonandi verða þau 6-7 í lok árs að sögn Þórdísar.
Helga fagnaði þessum áætlunum í erindi sínu sem bar yfirskriftina „Hvað segjum við?“
„Það er auðvitað að verða frekar súrt og þreytt að vera endalaust að tönglast á þeim tækifærum sem felast í því að byggja upp innviði,“ sagði Helga og nefndi mikilvægi þess að byggja upp aðgengi við náttúrperlur, samgöngur og almennt skipulag innan greinarinnar. „En ég vil trúa því að ný ríkisstjórn og nýr ráðherra muni láta hendur standa fram úr ermum.“
Um nýju ferðamálaskrifstofuna sagði Helga að það væri risaáfangi sem myndi enn frekar styrkja stjórnkerfið hvað varðaði þessa atvinnugrein. Sagði hún ferðaþjónustuna ekki bólu heldur eitthvað sem komið væri til þess að vera og sagði að það væri hreint glapræði að fjárfesta ekki í því sem skilaði þjóðarbúinu margföldum verðmætum til baka.
Helga sagði að þó svo að gengi vel í ferðaþjónustunni á Íslandi í dag væri sú velgengni langt frá því að vera trygging fyrir velgengni morgundagsins. „Það þarf alltaf að halda því til haga að ferðamenn eru ekki gefins. Það að taka þeim sem sjálfsögðum hlut er hættumerki út af fyrir sig sem heyrist of oft í umræðunni.“
Sagði hún jafnframt að samstarfsverkefni í ferðaþjónustunni byggðu upp ákveðna ímynd en ímynd og orðspor væri ekki aðeins byggt upp á fallegri glansmynd heldur á staðreyndum um það sem Ísland stæði fyrir. „Hér er ábyrgð okkar allra mjög mikil,“ bætti Helga við.
Sagði hún ábyrgðina ekki bara stjórnvalda eða sveitarfélaga heldur einnig þeirra sem störfuðu í ferðaþjónustu að tryggja það að gæðin og þjónusta héldust í hendur við væntingar. „Þó svo að svartir sauðir fyrirfinnist í ferðaþjónustunni rétt eins og örðum atvinnugreinum er rétt að taka það fram að langflestir gera stórkostlega hluti. Það má ekki gleyma því ferðaþjónustan fjárfesti fyrir um 62 milljarða í innviðum árið 2015 sem er mörgum sinnum hærri upphæð en ríkið gerði á sama tíma,“ sagði Helga og sagði mikilvægt að gleðjast yfir góðum árangri.
„En í miklum vexti er það stundum svo að rekstraraðilar koma bara inn á markað með skammtíma arðsemi í huga. Það er óþolandi og skemmir fyrir okkur hinum og greininni allri og þeim sem vilja láta taka sig alvarlega,“ sagði Helga. Hún sagði það jafnframt óþolandi hvernig umræðan hverfðist nær öll um þá aðila. „En það erum oft við sem komum umræðunni af stað um það sem fer miður í stað þess að horfa til uppbyggingastarfsins,“ sagði Helga. „Það má ekki gleyma því að allar kannanir sýna að ferðamaðurinn er í dag almennt ánægður með dvölina, þ.e. ferðin hefur staðist væntingar hans.“
Hvatti Helga fundargesti til þess að tileinka sér ábyrga umræðu hvort sem það væri í „netheimum, fjölmiðlum eða fjölskylduboðunum. Við berum öll ábyrgð.“
Sem dæmi um áhrif umræðunnar nefndi Helga ummæli Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, í samtali við breska blaðið Telegraph þar sem hún sagði að Ísland væri að breytast í Disney-land.
„Það má vera að upplifun þingmannsins sé neikvæð en svona tal út frá hans upplifun en ekki staðreyndum kostaði mikla orku og tíma innan Íslandsstofu; að vinda ofan af umræðunni sem hófst í kjölfarið,“ útskýrði Helga. „Skoðun einnar manneskju er ekki staðreynd.“
Sagði hún margt hægt að bæta og sagði uppbyggilega gagnrýni alltaf af hinum góða. „En leið gífuryrða er ekki vænleg til árangurs. Það má miklu heldur nálgast þetta með jákvæðni og hvatningu að leiðarljósi,“ bætti hún við.
Sagði Helga til lítils að vinna fyrir ferðaþjónustuna ef góð umfjöllunværi alltaf jafnóðum rifin niður. „Það sem gerir þessa atvinnugrein að mörgu leyti einstaka er það að við erum öll þátttakendur. Við erum gestgjafar og því er mikilvægt og skiptir máli hvað við segjum og hvernig við segjum frá því það er nefnilega hlustað,“ sagði Helga.