Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert athugasemdir við eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá Borgun hf. FME krefst viðeigandi úrbóta og vill að Borgun skili aðgerðaáætlun til stofnunarinnar þar sem sýnt er hvernig það hyggst bregðast við athugasemdum og úrbótakröfum.
Markmið athugunarinnar var að kanna hvort verklag félagsins í tengslum við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn, reglubundið eftirlit, tilkynningarskyldu og innra eftirlit væri í samræmi við II., III. og V. kafla laganna.
Í niðurstöðum Fjármálaeftirlitsins eru athugasemdir gerðar við að Borgun hf. hefði í tilviki 13 viðskiptamanna af 16 ekki framkvæmd könnun á áreiðnaleika upplýsinga um viðskiptamennina með fullnægjandi hætti áður en samningssambandi var komið á.
Meðan á athugun Fjármálaeftirlitsins stóð sleit Borgun viðskiptasambandi við þrjá þessara viðskiptamanna.
Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemdir varðandi framfylgni Borgunar hf. við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Í athugasemdunum kemur m.a. fram að: „Borgun hf. sinni almennt ekki með fullnægjandi hætti reglubundnu eftirliti með samningssambandi við viðskiptamenn vegna færsluhirðingar félagsins fyrir þá erlendis, skv. 6. gr. laganna. Að Borgun hf. hafi ekki gripið til ráðstafana til að sinna með fullnægjandi hætti rannsóknarskyldu sinni og mögulegri tilkynningarskyldu vegna viðskipta sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis, skv. 17. gr. laganna og að að Borgun hf. hafi ekki séð til þess að starfsmenn hafi fengið fullnægjandi þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis.“
Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins er að framkvæmd, verklag og eftirlit Borgunar hf. í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar félagsins erlendis hafi ekki uppfyllt með viðunandi hætti þær meginkröfur sem gerðar eru í lögum.
FME krefst viðeigandi úrbóta og vill að Borgun hf. skili aðgerðaáætlun til stofnunarinnar þar sem sýnt er hvernig það hyggst bregðast við athugasemdum og úrbótakröfum og einnig hvernig tryggt er að aðgerðir fyrirtækisins gegn peningavætti samræmdumst lögum, leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins og innri reglum félagsins.
Borgun hf. fær tvo mánuði til að ljúka úrbótunum.