Borgun tekur athugasemdum Fjármálaeftirlitsins við verklag og eftirlit vegna viðskipta við nokkra af viðskiptavinum fyrirtækisins á erlendum mörkuðum alvarlega. Þá mun fyrirtækið tryggja í samstarfi við FME að starfsemin fullnægi betur en nú er ýtrustu skilyrðum laga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgun.
FME birti á heimasíðu sinni á föstudaginn frétt þess efnis að eftirlitið hafi gert athugasemdir við eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá Borgun hf. FME krafðist viðeigandi úrbóta og vill að Borgun skili aðgerðaáætlun til stofnunarinnar þar sem sýnt er hvernig það hyggst bregðast við athugasemdum og úrbótakröfum.
Markmið athugunarinnar var að kanna hvort verklag félagsins í tengslum við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn, reglubundið eftirlit, tilkynningarskyldu og innra eftirlit væri í samræmi við II., III. og V. kafla laganna.
Í niðurstöðum FME eru athugasemdir gerðar við að Borgun hf. hefði í tilviki 13 viðskiptamanna af 16 ekki framkvæmt könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamennina með fullnægjandi hætti áður en samningssambandi var komið á.
„Borgun tekur athugasemdum FME alvarlega og mun tryggja í samstarfi við FME að starfsemin fullnægi betur en nú er ýtrustu skilyrðum laga m.t.t. könnunar á áreiðanleika viðskiptamanna og skyldum þáttum, en lítið hefur reynt á túlkun þessara reglna, sem eru um ýmislegt matskenndar, í íslenskri stjórnsýslu- og réttarframkvæmd. Borgun hefur þess í stað reitt sig á reglur, túlkun og úttektir kortafélaganna Visa og MasterCard sem byggja á sömu Evrópulögum og hér um ræðir. Það er brýnt að taka fram að hvorki er um að ræða grun um peningaþvætti né fjármögnun hryðjuverka. Borgun hefur þegar hafist handa við að uppfylla fyrirmæli FME, meðal annars með því að segja upp viðskiptasambandi við nokkra aðila,“ segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar.
Stefnt er að því að allri vinnu af hálfu Borgunar til að uppfylla kröfur FME um úrbætur verði lokið innan tveggja mánaða.