Stjórnvöld myndu senda kolröng skilaboð og það væru mikil vonbrigði ef rétt reynist að hverfa eigi frá áætlun stjórnvalda um losun hafta og viðræður við vogunarsjóði á ný settar framar markmiðinu um að losa almenning og atvinnulífið við höftin. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda, um losun hafta hér á landi.
Í vikunni sagði Fréttablaðið frá því að embættismenn á vegum íslenskra stjórnvalda hafi farið til New York síðustu helgi til að funda með bandarískum vogunarsjóðum sem eiga stærstan hluta aflandskrónanna.
Sigurður segir að með útboði Seðlabankans í júní í fyrra hafi sjóðunum, sem eiga yfir hundrað milljarða í aflandskrónum, verið boðið upp á tvo kosti. Annar væri að taka þátt í útboðinu eða vera með fjármagn hér til langs tíma. Seðlabankinn samþykkti tilboð frá einum sjóði, en aðrir skiluðu inn tilboðum sem þóttu ekki ásættanleg. „Fjárfestar völdu þarna á milli og þar með var þetta vandamál leyst,“ segir Sigurður og bætir við að með því að leysa þennan aflandskrónuvanda hafi næsta skref átt að vera að losa höftin á almenning og fyrirtæki. Vogunarsjóðirnir sem ekki hafi verið með samþykkt tilboð hafi farið aftast í röðina.
„Það skýtur því skökku við ef það á að fara að hverfa frá áætluninni sem hefur skapað trúverðugleika og semja sérstaklega við þá sem hafa ákveðið að vera hér til langs tíma en meintu svo ekki neitt með því,“ segir hann og vísar til þess að strax eftir útboðið hafi vogunarsjóðirnir farið að birta auglýsingar og fara í mál við stjórnvöld. Þannig hafi þeir jafnvel skipt sér af kosningum hér á landi með þessum auglýsingum sem Lee Buchheit, sem var ráðinn ráðgjafi framkvæmdahóps um losun hafta árið 2014, hafi sagt vera einsdæmi af hálfu fjárfesta.
Sigurður segir að fyrir utan áhrif á trúverðugleika stjórnvalda ef hverfa eigi frá stefnunni, þá sé verið að senda kolröng skilaboð frá stjórnvöldum. „Stjórnvöld setja leikreglur í kringum útboð og svo eru þeir verðlaunaðir sem hunsa leikreglurnar.“
Sigurður telur fundinn um helgina haldinn vegna þrýstings frá vogunarsjóðunum. Segir hann þá hafa viðhaft kröftugan þrýsting síðustu misseri, en þrátt fyrir allt hafi dómsmál sem þeir hafi höfðað annað hvort endað með að vera vísað frá eða dæmd Íslandi í vil.
Spurður hvort um forsendubrest sé að ræða ef stjórnvöld ákveða að fara aðra leið í máli þeirra sjóða sem enn eigi hér aflandskrónur en lagt var upp með í útboðinu segir Sigurður að það sé alla vega ljóst að þá séu gefin þau skilaboð að þeir sem spili eftir leikreglum fái verri niðurstöðu en aðrir. „Vandamálið var leyst í fyrra. Það þarf ekkert að gera nema losa höftin, það er búið að ákveða forgangsröðina,“ segir Sigurður að lokum og bætir við að þar séu vogunarsjóðirnir sem um ræðir aftast í röðinni.