Rúmlega tvöföldun varð á virkum gistirýmum á Airbnb í Reykjavík milli ára og eru þau alls um tvö þúsund talsins. Heildartekjur af útleigunni jukust um 4,25 milljarða króna eða 169% og námu alls 6,76 milljörðum samanborið við 2,51 milljarð árið 2015.
Þetta er meðal þess er fram kemur í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna sem kynnt var í morgun.
Í skýrslunni segir að fjölgun íbúða í heilsársútleigu á Airbnb hafi verið talsvert umfram fjölgun nýrra íbúða í Reykjavík yfir sama tímabil og þannig átt stóran þátt í mikilli hækkun íbúðaverðs á svæðinu.
Þegar einungis er horft til heimila sem voru í útleigu í gegnum Airbnb og nýtingu þeirra í hverjum mánuði má áætla fjölda íbúða sem voru í leigu á Airbnb öllum stundum eftir mánuðum samkvæmt skýrsluhöfundum. Að meðaltali voru um 300 íbúðir í útleigu öllum stundum á Airbnb á árinu 2015 og um 809 á árinu 2016. Er þetta aukning um 509 íbúðir en til samanburðar voru byggðar 399 íbúðir í Reykjavík á árinu 2016.
„Fjölgun íbúða í heilsársútleigu á Airbnb hefur því verið talsvert umfram fjölgun nýrra íbúða í Reykjavík yfir sama tímabil og þannig átt stóran þátt í mikilli hækkun íbúðaverðs á svæðinu,“ segir í skýrslu Íslandsbanka. Þá er bent á að í ágúst á árinu 2016 náði fjöldi íbúða á Airbnb hámarki í um 1.225 íbúðum og er það um 131% fjölgun frá því í sama mánuði á árinu 2015 þegar fjöldinn var 531.
Fram kemur í skýrslunni að um þriðjungur ferðamanna eða um 586 þúsund hefði getað nýtt sér gistiþjónustu í gegnum Airbnb á árinu 2016 miðað við fulla nýtingu.
Heildarframboð gistinátta á Airbnb í Reykjavík nam um 2,35 milljónum á árinu 2016 eða um 69% af heildarframboði gistinátta hótela á höfuðborgarsvæðinu á sama ári. Framboð gistinátta á Airbnb í Reykjavík yfir háannatímann síðastliðið sumar var enn þá hærra sem hlutfall af framboði gistinátta á hótelum á höfuðborgarsvæðinu eða um 87%.
Samkvæmt skýrsluhöfundum má áætla að afkastageta Airbnb í Reykjavík verði orðin sambærileg við afkastagetu allra hótela höfuðborgarsvæðisins til samans á líðandi ári haldi gistiþjónusta í gegnum Airbnb áfram að vaxa líkt og á undanförnum árum.
Heildartekjur vegna útleigu gistirýma á Airbnb námu um 6,76 milljörðum króna á árinu 2016 en til samanburðar námu tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu um 19,6 milljörðum króna. Tekjur gistirýma á Airbnb í Reykjavík námu því rúmlega þriðjungi, eða 35%, af tekjum hótela á höfuðborgarsvæðinu til samans.
Tekjur vegna gistirýma á Airbnb í Reykjavík námu um 2,51 milljarði króna á árinu 2015 og jukust heildartekjur því um 4,25 milljarða á milli ára eða um 169%. Skýrist þetta af því að rúmlega tvöfalt fleiri gistirými voru að jafnaði leigð út á árinu 2016 og voru þau einnig leigð út oftar og í lengri tíma í senn líkt og áður hefur komið fram.
Einnig kom til nokkur verðhækkun á hverja selda nótt. Meðaltekjur af hverri seldri nótt jukust úr 16,1 þúsund krónum á árinu 2015 í 16,3 þúsund krónur á árinu 2016 eða um tæplega 1%.
Meðaltekjur af hverju gistirými voru um 271 þúsund krónur á mánuði á árinu 2016 og hækkuðu um 25% frá fyrra ári. Er það ígildi þess að tekjur af hverju gistirými, miðað við heilsársleigu, hafi verið um 3,25 milljarðar króna að meðaltali árið 2016. Tekjur í dollurum voru tæplega þrefalt meiri á árinu 2016 en 2015.