Ríkisútvarpið skilaði 1.429 milljón króna hagnaði eftir skatta á síðasta ári, en hagnaður fyrir skatta nam 1.630 milljónum. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 95 milljónum fyrir skatta, en einskiptishagnaður vegna sölu á byggingarrétti var 1.535 milljónir.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að margvísleg hagræðing hafi skilað sér og að jafnvægi sem komið hafi verið á árið 2015 hafi haldist.
Eiginfjárhlutfall RÚV hækkaði úr 6,2% árið áður upp í 23,8% í árslok 2016. Þá er varað við því að þrátt fyrir jákvæða afkomu ríki enn óvissa um framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar og vegna lífeyrisskuldbindinga frá gamalli tíð.
Nýr þjónustusamningur RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytisins var undirritaður á árinu og gildir hann til ársloka 2019. Stöðugildi voru að meðaltali 258 á árinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 259 árið 2015, 297 árið 2013 og 324 árið 2008.
Haft er eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra í tilkynningunni að skuldsetningin sé baggi á starfseminni í dag. „ Nýr þjónustusamningur sem undirritaður var á síðasta ári tryggir loks fyrirsjáanleika og öryggi í tekjum félagsins til næstu ára. Á hinn bóginn er félagið enn of skuldsett vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga frá gamalli tíð og er það mikill baggi á starfseminni í dag en á þeirri yfirskuldsetningu þarf að taka. Staða RÚV er sterk, hvort heldur litið er til rekstrarlegs árangurs eða notkunar og viðhorfs almennings. “