Ríkisstjórn Íslands situr nú á fundi en blaðamenn hafa verið boðaðir á fund forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, og fjármála- og efnahagsmálaráðherra, Benedikts Jóhannessonar, klukkan 14. Þar verða kynntar aðgerðir stjórnvalda við að afnema gjaldeyrishöft sem hafa verið í gildi frá því eftir hrun.
Afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki gætu orðið á næstu vikum eða næstu mánuðum. Þetta kom fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrir helgi við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Sagðist Benedikt jafnframt vona að tillögur um aðgerðir til viðnáms í gjaldeyrismálum verði tilbúnar í næstu eða þarnæstu viku.
Sigurður Ingi spurði ráðherrann út í afnám hafta og meinta „leynifundi“ stjórnvalda við bandaríska vogunarsjóði í síðustu viku. Vildi Sigurður Ingi vita hvenær þess mætti vænta að höft verði afnumin og hvort fyrrnefndir leynifundir væru að trufla ferlið.
„Það hefur nefnilega ekki verið ljóst í orði ráðherra í síðustu viku hvort það sé einhugur í ríkisstjórn að fylgja eftir áætlun um afnám hafta eða verðlauna þá sem rætt var við á leynifundi stjórnvalda,“ sagði hann og bætti við að stjórnendur þeirra vogunarsjóða hefðu verið „erfiðastir og harðastir í andstöðu við endurreisn íslensks efnahagslífs.“.
Þá spurði hann jafnframt hvort þessar viðræður snerust um að bjóða þeim önnur og betri kjör en öðrum.
Lög um breytingar á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál tóku gildi 21. október 2016. Þau miða að losun fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki. Þær meginbreytingar sem gerðar eru á lögunum fela í sér auknar heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa og gjaldeyrisviðskipta, svo og afnám tiltekinna takmarkana sem gilt hafa um fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrisviðskipti. Hluti þeirra breytinga sem samþykktar voru taka gildi strax, en aðrar taka gildi 1. janúar 2017. Seðlabanka Íslands ber jafnframt að endurskoða fjárhæðarmörk heimilda, sem gilda um tilteknar fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskipti, í reglum bankans fyrir 1. júlí 2017.
Breytingarnar eru liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var 8. júní 2015. Með þeim eru stigin veigamikil skref í átt að fullri losun fjármagnshafta.