Sævar Freyr ráðinn bæjarstjóri

Sævar Freyr Þráinsson
Sævar Freyr Þráinsson

Á lokuðum fundi bæjarstjórnar Akraness þann 28. febrúar síðastliðinn var samþykkt samhljóða að ganga til samninga við Sævar Frey Þráinsson um starf bæjarstjóra á Akranesi. Sævar tekur við starfinu af Regínu Ásvaldsdóttur sem nýlega var ráðin sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Sævar Freyr hefur verið forstjóri 365 miðla frá árinu 2014 en tilkynnt var í Kauphöllinni í morgun að Vodafone hefði gengið frá samkomulagi um kaup á rekstri ljósvaka- og fjarskipta­ rekstri 365 ásamt starfsemi visir.is.

Sævar er viðskiptafræðingur að mennt. Hann starfaði sem forstöðumaður og framkvæmdastjóri hjá Símanum um margra ára skeið þar sem hann bar meðal annars ábyrgð á þróun, sölu, markaðsmálum, vörustjórnun, viðskiptastýringu og gagnalausnum. Hann varð forstjóri Símans árið 2007 og gegndi því starfi þar til hann tók við forstjórastöðu hjá 365 miðlum.

Sævar á sæti í framkvæmdastjórn viðskiptaráðs og hefur gengt stjórnarformennsku meðal annars hjá fyrirtækjunum Sensa og On-Waves og átt sæti í stjórnum fjölmargra fyrirtækja sem tengjast fjarskiptamálum og hugbúnaði.

Sævar Freyr hefur tekið með virkum hætti þátt í samfélags- og menningarmálum á Akranesi en hann er varaformaður knattspyrnufélags Íþróttabandalags Akraness, varaformaður Vesturlandsvaktarinnar sem eru hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og stjórnarmaður í góðgerðarfélaginu, Club 71. Þá hefur hann átt sæti í atvinnumálanefnd kaupstaðarins og í stjórn Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar.

Sævar Freyr er giftur Hafdísi Hannesdóttur geislafræðingi og eiga þau þrjú börn á aldrinum 13 til 21 árs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK