Raftækjaverslunin Elko hefur breytt verðvernd sinni þannig að hún gildir ekki lengur gagnvart keppinautum. Gildir hún einungis gagnvart verðbreytingum í versluninni sjálfri. „Það gefur augaleið að við getum ekki farið endalaust niður með verðið,“ segir Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko.
Verðverndin hefur verið hluti af rekstrarmódeli Elko í nítján ár eða frá því að verslunin var opnuð hér á landi árið 1998. Í norska Elko sem nefnist Elkjøp er verðvernd gagnvart samkeppnisaðilum enn í gildi.
Að sögn Gests hefur verðverndin verið endurskoðuð á hverju ári og þá sérstaklega á seinni árum samhliða stækkun fyrirtækisins. Hann segir að áfram verði keppt á besta mögulega verði en bætir við að ekki sé hægt að fara undir kostnaðarverð. Ef svo færi hefðu stjórnendur áhyggjur af mögulegu samkeppnislagabroti. Fyrirtækið megi ekki teljast vera með markaðsráðandi stöðu og selja vörur undir kostnaðarverði.
Samkeppniseftirlitið hefur þó ekki gert athugasemd við Elko að sögn Gests. „En við erum að vanda okkur,“ segir hann.
Spurður hvort ákvörðunin tengist innreið Costco á markaðinn svarar Gestur neitandi. Segist hann þó fylgjast með þeim jafnt sem öðrum keppinautum og að Elko geri reglulegar verðkannanir. Hann bendir á að heimurinn sé orðinn opnari en áður og að pöntunum erlendis frá hafi fjölgað til muna. „Þetta er markaðurinn sem við störfum á og við þurfum að fylgjast með öllum. Costco er einn þeirra en við höfum verið að fókusa á marga aðra líka.“