Þrátt fyrir afnám gjaldreyrishafta gerir hagfræðideild Landsbankans ráð fyrir rólegri styrkingu krónunnar.
Þetta kemur fram í verðbólguspá hagfræðideildarinnar.
Verði raunin önnur og krónan taki að veikjast mun það að sjálfsögðu þýða hærri verðbólgu að sögn deildarinnar. Hækkun húsnæðisverðs sé aðaldrifkraftur verðbólgunnar nú og gerir hagfræðideildin ráð fyrir að hækkanir næstu mánuði verði svipaðar og verið hefur seinustu mánuði. Hækki húsnæðisverð meira muni það að öðru óbreyttu þýða hærri verðbólgu. Búast megi við aukinni verðsamkeppni samhliða opnun á Costco og H&M hér á landi. Hversu mikil áhrif þetta hafi á verðlag á eftir að koma í ljós að mati hagfræðideildarinnar.
Þá er bent á að launahækkanir á seinasta ári hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti inn í verðlag. Óvíst sé að sú verði einnig raunin í ár, en samkvæmt kjarasamningum eiga laun flestra launþegahópa að hækka töluvert í maí.
Líkt og fram hefur komið hefur krónan styrkst í dag.