Flækjustigið og kostnaðurinn við skráningu á eign í heimagistingu fælir marga frá því að leigja heimili sitt út til ferðamanna á löglegan hátt að sögn Sölva Melax, formanns Samtaka um skammtímaleigu á heimilum. Skráningin á heimili kostar 42.060 krónur en ekki 8.500 eins og upphaflega stóð til.
Um áramótin tóku gildi ný lög um heimagistingu en tilgangur þeirra var að gera fólki mögulegt að leigja út lögheimili og frístundaheimili sín með einföldum hætti. Líkt og mbl greindi frá á dögunum hafa alls 161 sótt um og fengið slíkt leyfi.
„Vægast sagt er hægt að segja að það hafi mistekist,“ segir Sölvi. „Ein af forsendum þess að ferlið yrði einfaldað var að felld yrði út reglugerð Heilbrigðiseftirlitsins. Það tókst ekki og því þarf að fá leyfi frá heilbrigðisnefnd. Bara það kostar 34.500.“
Sölvi segir það orka tvímælis að í landslög séu sett ákvæði sem takmarka ráðstöfunarrétt manna yfir eignum sínum líkt og gert hafi verið. Þetta sé ekki gert í þeim löndum sem við berum okkur saman við, slíkt viðgangist þá frekar í ákveðnum borgum eða á landssvæðum. Vísar hann til þess að í Danmörku þurfi ekki gistileyfi fyrir húnsæði með allt að þremur herbergjum eða átta rúmum og að í Svíþjóð sé aðeins þörf fyrir gistileyfi þegar stærðin fari yfir fjögur herbergi.
„Þetta er allt rosalega flókið og það að fólk þurfi að skrá sig inn, skila inn skýrslu og setja inn hvaða daga þeir séu að leigja er rosalega flókið miðað við fyrirkomulagið í öðrum löndum,“ segir Sölvi.
Sölvi segir einnig allar upplýsingar hafa verið af mjög skornum skammti. Ríkisskattstjóri hafi ekki gefið út neinar leiðbeiningar um það hvernig greiða skuli skatt af starfseminni. Reglur um það séu illskiljanlegar og flóknar þar sem ýmsar túlkanir og skilgreiningar þurfi til þess að vita hversu mikinn skatt skuli greiða. Mismunandi túlkanir laganna séu algengar og að skatturinn geti verið allt frá 10% upp í 46%.
Þá séu leyfisgjöldin allt of há. „Það kom fram á þingi að þetta ætti að kosta í kringum átta þúsund krónur og á vefsíðunni sagði að þetta ætti að kosta 8.500 krónur. Síðan bættist þetta við með heilbrigðisnefndina en það kostar 34.500 krónur að fá hana í heimsókn. Það er það sama og hótel þurfa að borga. Ef þú ert með heilt hótel er eðlilegt að einhver komi í heimsókn og taki það út en annað gildir kannski með heimili fólks. Síðan stefnir allt í það að þeir rukki einnig árgjald upp á 10.000 krónur,“ segir Sölvi.
„Ef þú er að fara leigja íbúðina þína út í tíu daga á meðan þú ferð til útlanda þarftu að standa í þessu.“
Aðspurður um úrbætur sem hann myndi vilja sjá segir Sölvi að fyrst og fremst þurfi að fella út reglugerð Heilbrigðiseftirlitsins. Þá þurfi einnig að einfalda reglur um skattheimtu. Þeir sem fari yfir 90 daga regluna þurfi samkvæmt núverandi fyrirkomulagi að skila inn rekstrarskýrslu og að það sé flókið fyrir hinn almenna einstakling. „Hann forðast þá helst frá því að setja þetta inn á skattskýrsluna. Þetta er orðið allt of flókið,“ segir Sölvi.