Ekki er boðlegt að erlent fyrirtæki á borð við Airbnb geti neitað stjórnvöldum um upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir eftirlit með starfseminni. „Við eigum að standa í ístaðinu og fá þessar upplýsingar. Annars loka á þetta,“ sagði Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í heitum pallborðsumræðum um Airbnb á Ferðaþjónustudeginum í dag.
Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra greip þá orðið og sagði ekki hægt að kenna fyrirtæki í útlöndum um lögbrot nokkurra einstaklinga. Grímur sagðist ósammála þessu og benti á að nauðsynlegar upplýsingar væru til hjá þessu fyrirtæki. Með þær að vopni væri hægt að ganga hús úr húsi og athuga skattskil manna.
Björt benti á að offjárfesting í hótelum væri einnig ókostur og sagði útleigu íbúða góðan valkost. Nauðsynlegt sé hins vegar að færa starfsemina frekar upp á yfirborðið og gera greinarmun á útleigu heimilis til styttri tíma og heilsársútleigu. Sagði Björt að vinna stæði nú yfir við að gera hið fyrrnefnda aðeins skráningarskylt en ekki leyfisskylt.
Tók Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra undir muninn á þessu tvennu. Engin þolinmæði væri gagnvart þeim er væru að stunda svarta atvinnustarfsemi með heilsársútleigu en að dæmið horfði öðruvísi við þegar fólk væri að leigja út heimili sitt til skemmri tíma á meðan það færi sjálft til útlanda.
Sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að það hlyti að vera hægt að ráða við vandamálið þar sem allar upplýsingar væru aðgengilegar á heimasíðu Airbnb. Þar sé meðal annars hægt að nálgast mynd af eiganda og útleigutímabil.