Það kostar alls 77.560 krónur að fá leyfi til að leigja út heimili sitt í Reykjavík á síðum á borð við Airbnb í skemmri tíma en níutíu daga á ári. Sá sem ætlar að leigja út heimili sitt á löglegan hátt á meðan hann er sjálfur erlendis þarf fyrst að greiða þetta gjald.
Um áramótin tóku gildi ný lög um heimagistingu en tilgangur þeirra var að gera fólki mögulegt að leigja út lögheimili og frístundaheimili sín með einföldum hætti. Líkt og mbl greindi frá á dögunum hafa aðeins 161 sótt um og fengið slíkt leyfi. Í samtali við mbl í gær sagði Sölvi Melax, formaður Samtaka um skammtímaleigu á heimilum, að flækjustigið og kostnaðurinn við skráningu á eign í heimagistingu fæli marga frá því að gefa upp heimagistingu á löglegan hátt.
Upphaflega var talað um að kostnaðurinn við að skrá eign yrði í kringum 8.000 krónur en þar sem krafist er samþykkis Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hækkar verðið nokkuð.
Er nauðsynlegt að greiða skráningargjald er hljóðar upp á 8.560, eftirlitsgjald fyrir skoðunina upp á 34.500 krónur auk starfsleyfisgjalds sem einnig hljóðar upp á 34.500. Nemur heildarkostnaðurinn þar með 77.560 krónum.
Heimagisting er hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur flokkuð sem áhættulítil starfsemi og er því ekki farið í eftirlitsferðir án þess að kvartanir berist. Ef réttmætur grundvöllur er talinn vera fyrir kvörtun þarf húseigandi að greiða 34.500 króna eftirlitsgjald en að öðru leyti er enginn viðbótarkostnaður. Starfsleyfið er gefið út til tólf ára.
Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri Matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að eftirlitið hafi á öllum stigum bent á að skráning íbúðar í heimagistingu samkvæmt nýju lögunum yrði ekkert einfaldari án þess að skilyrði um starfsleyfi Heilbrigðiseftirlitsins yrði fellt niður.
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði á Ferðamáladeginum í gær að endurskoðun á reglum um heimagistingu stæði yfir í hennar ráðuneyti. Sagði hún að unnið væri að því að gera skammtímaleigu aðeins skráningarskylda en ekki leyfisskylda.
Segist Óskar hafa heyrt af þessu en þó hafi hann ekki séð neinar tillögur.
Óskar bendir á að Heilbrigðiseftirlitið myndi áfram sinna eftirliti ef á þyrfti að halda þrátt fyrir að skráning hjá sýslumanni væri aðeins nauðynleg. „Heilbrigðiseftirlitið getur þannig blandað sér inn í málið komi upp einhver vandamál,“ segir hann. „Þannig hugsuðum við þetta á sínum tíma en því miður hlustuðu menn ekki á okkur. Mér finnst svolítið skrýtið að fólk sé að uppgötva það núna að breytingin hafi ekki orðið alveg eins og hún átti að vera,“ segir Óskar.