„Ætti að vera bannað fyrir banka“

Pétur Einarsson, fyrrverandi forstjóri Straums og leikstjóri Ransacked.
Pétur Einarsson, fyrrverandi forstjóri Straums og leikstjóri Ransacked.

Pétur Einarsson, fyrrverandi forstjóri Straums, segir vogunarsjóði óheppilega eigendur banka. Þeir séu ekki langtímafjárfestar og hafi ekki áhuga á rekstri. Mikið eigið fé sé í íslensku bönkunum og það sé hægt að greiða út sem arð.

Pétur var forstjóri Straums á árunum 2011 til 2013 og var framkvæmdastjóri Íslandsbanka í London fyrir hrun. Í fyrra gaf hann út heimildarmyndina Ránsfeng eða Ransacked sem fjallar um ofvöxt bankakerfisins, fjármálahrunið, vogunarsjóði og áhrif þessa á venjulegt fólk.

Greint var frá sölu Kaupthings á 30% hlut í Arion banka í gær. Kaupendurnir eru Attestor Capital LLP í gegn­um Trinity In­vest­ment Designa­ted Acti­vity Comp­any með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK LLP í gegn­um TCA New Si­decar III s.a.r.l. með 9,99% hlut, Sculp­tor In­vest­ments s.a.r.l., fé­lag tengt Och-Ziff Capital Mana­gement Group með 6,6% hlut og að lokum Goldm­an Sachs In­ternati­onal í gegn­um ELQ In­vestors II Ltd. með 2,6% hlut.

Kaupverðið er ríf­lega 48,8 millj­arðar króna, eða 0,81 króna fyr­ir hverja krónu eig­in fjár bank­ans. Öll fjögur félögin eru hluthafar í Kaupþingi, en Taconic Capital og Och-Ziff eru tveir stærstu hluthafarnir. 

Halda sig undir viðmiði FME

Athygli vekur að Attestor Capital og Trinity kaupa 9,99% hlut sem er rétt undir viðmiði Fjár­mála­eft­ir­lits­ins um virk­an eign­ar­hlut sem er 10%. Virk­ur eign­ar­hlut­ur kallar á rík­ari kröfu um að eft­ir­litið skoði viðkom­andi kaup­anda. 

Spurður um þetta segir Pétur að kaupendur séu klárlega að halda sig innan við 10% mörkin til þess að fara ekki í virkan eignarhlut. „En þá hlýtur spurning um þeirra tengsl að vakna. Mætti ekki skilgreina þá sem einn hóp?“ spyr Pétur.

Pétur segir aðkomu vogunarsjóða að íslensku fjármálakerfi ekkert nýtt. „Bandarískir vogunarsjóðir hafa farið með ráðandi eignarhlut í Íslandsbanka og Arion frá hruni og óbeint í Landsbankanum í gegnum risastórt skuldabréf milli gamla og nýja bankans. Þetta er mjög óheppilegt en er ekkert nýtt,“ segir hann.

Hann segir vogunarsjóði í eðli sínu vera lokaðan klúbb sem ekki séu eftirlitsskyldir eins og bankar. Þeirra eignarhald og starfsemi sé ekki opinber. 

Þrjátíu prósenta hlutur í Arion banka hefur verið seldur.
Þrjátíu prósenta hlutur í Arion banka hefur verið seldur. Ljósmynd/Ragnheiður Arngrímsdóttir

Létta fyrir sölu

Pétur telur kaupin gerð til að loka „íslensku fléttunni sem byrjaði 2008.“

„Bankarnir eru svo stórir að þeir þurfa að kaupa af sjálfum sér til þess að létta fyrir sölunni á meðan breiðari hópur finnst, t.a.m með skráningu i Svíþjóð. Síðan er mikið eigið fé í bönkunum sem er hægt að greiða út sem arð,“ segir hann.

Spurður hvort hann telji að um langtímafjárfestingu geti verið að ræða segir Pétur að markmið vogunarsjóða eins og þessara sé að kaupa gjaldþrota fyrirtæki og selja með hagnaði. Þetta sé hluti af því. „Hitt er svo annað mál að bankar eru kerfislega mikilvægir og því eru svona sjóðir mjög óheppilegir eigendur,“ segir Pétur.

„Þeir eru ekki langtímafjárfestar og þeir hafa í sjálfu sér ekki áhuga á rekstri. Þeir hagnast fyrst og fremst á því að taka stöðu. Taka áhættu og kaupa eitthvað ódýrt, umbreyta eða bíða eftir betri aðstæðum og selja þá aftur. Það ætti að vera bannað fyrir banka.“

Pétur segir íslenska banka vera með mun sterkari stöðu en víðast annars staðar. Þeir séu mjög stórir miðað við landið og með mikilli samþjöppun. Þetta sé staða sem komið hafi upp árið 2008 og að verið sé að reyna leysa vandann núna með reddingum. „Aldrei er tími til þess að breyta kerfinu,“ segir Pétur að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK