Vildu ekki tefja söluferlið

Frank Brosens, stofnandi og eigandi bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital, sem keypt hefur 9,99% hlut í Arion banka, segir spurður um hvort kaupin í Arion banka séu í takt við fjárfestingarstefnu sjóðsins, að fjárfestingar hans séu af ýmsum toga. Sjóðurinn hafi fjárfest í nýjum bönkum í Bandaríkjunum árið 2009 eftir fjármálahrunið og átt þær fjárfestingar allt þar til á þessu ári. Hann segir það sýna glöggt að félagið sé tilbúið að fjárfesta til meðallangs og langs tíma í verðbréfum, og þá sérstaklega í bönkum.

Skilgreinir þú 8 ár þá sem langtíma fjárfestingu?

„Ég veit ekki hve lengi við höldum þessu [fjárfestingunni í Arion banka]. Það fer eftir því hvað markaðurinn er lengi að meðtaka virði og horfur bankans,“ sagði Brosens í samtali við Morgunblaðið.

Mikilvægt að tefja ekki ferlið

Spurður að því hvort Taconic Capital hafi haldið sig undir 10% eignarhlut í Arion banka til að þurfa ekki að hlíta kröfum Fjármálaeftirlitsins um fullt gegnsæi eigendahópsins, segir Brosens að það sé ekki ástæðan. Fyrirtækið sé nú þegar í því ferli að fá að verða metið sem hæft til að fara með virkan eignarhlut, komi til þess að það nýti sér möguleikann á að auka við hlutinn í bankanum. Þann valrétt þurfa þeir að nýta sér áður en almennt hlutafjárútboð verður haldið, sem ekki hefur enn verið tímasett.

„Ástæða þess að við takmörkuðum eignarhlut okkar við 9,99% var að við vildum ekki tefja söluferlið. Það var mikilvægt fyrir Kaupþing og einnig eitthvað sem yfirvöld litu jákvæðum augum.“

Sækjast ekki eftir stjórnarsæti

Brosens segir aðspurður að Taconic Capital muni ekki sækjast eftir sæti í stjórn Arion banka, hvorki nú né síðar, komi til þess að þeir auki við hlut sinn.

„Við erum aðallega áhugasöm um að tryggja sterka stjórnarhætti í bankanum til framtíðar, og það er mikilvægt fyrir bankann að hafa sterka alþjóðlega stjórn.“

Taconic Capital, sem kom fyrst inn á íslenska markaðinn síðla árs 2011 og fjárfesti þá meðal annars í þrotabúum Glitnis og Kaupþings, hefur fjárfest í skráðum íslenskum hlutafélögum á síðustu mánuðum. „Við eigum í mörgum af þeim best þekktu á markaðnum, en ekki stóra hluti. Við viljum taka þátt í íslenskum fjármálamarkaði og áframhaldandi uppgangi efnahags landsins.“

Spurður um vaxtarmöguleika Arion banka segist Brosens telja að banki þurfi að viðhafa hægan, stöðugan og sterkan vöxt sem sé í takt við hagkerfið og ekki að reyna að vaxa of hratt.

Vinna ekki saman

Auk Taconic Capital eru þrír aðrir kaupendur að um 29% hlut í Arion banka; Attestor Capital, Och-Ziff Capital Management og Goldman Sachs. Brosens segir aðspurður að ekki sé til staðar sameiginleg sýn hjá hópnum, hver og einn sé sjálfstæður í sinni nálgun. „Við ætlum okkur bara að vera uppbyggjandi í okkar störfum.“

Eins og fram hefur komið heldur Taconic Capital á hlut í Arion banka í gegnum félag í Lúxemborg, TCA New Sidecar III s.a.r.l. Hlutur Och-Ziff Capital Management er einnig í félagi skráðu í Lúxemborg, Sculptor Investments s.a.r.l., en Attestor Capital er með sinn hlut í írsku skúffufélagi, Trinity Investment Designated Activity Company. Hlutur Goldman Sachs er í félagi sem ber heitið ELQ Investors II og er í eigu dótturfélags bankans ELQ Holdings sem skráð er í Delaware í Bandaríkjunum.

Áttu yfir 66% í Kaupþingi

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins áttu fjárfestingarsjóðir í stýringu Taconic 38,6% hlut í Kaupþingi um áramótin. Sculptor Investments, félag Och-Ziff, átti 14,2% og fjárfestingarsjóðir í stýringu Attestor áttu 8,6%. Loks átti Goldman Sachs og sjóður í stýringu Goldman Sachs 4,8%. Samtals nam því eignarhlutur félaganna um 66,3% í Kaupþingi um áramótin

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK