Verslunarstörf í bráðri hættu

Fyrirtæki þurfa að bregðast við breyttu neyslumynstri.
Fyrirtæki þurfa að bregðast við breyttu neyslumynstri. AFP

Tæknin á eftir að gjörbreyta viðskiptaumhverfinu á næstu árum. Störf munu tapast og önnur skapast. Neytendur krefjast nýrra og sérsniðinna lausna og þurfa ærna ástæðu til að fara frekar í verslun en að klára viðskipti á netinu. Hvernig á að bregðast við þessu?

Anna Felländer, fyrrverandi aðalhagfræðingur Swedbank, ráðgjafi og einn helsti sérfræðingur Svía í áhrifum stafrænnar tækni á verslun og viðskipti, fór yfir málið á fundi Samtaka verslunar og þjónustu í dag.

Anna byrjaði á því að vitna í Bill Gates og sagði að skammtímaáhrif tækniframfara væru jafnan ofmetin. Langtímaáhrifin séu hins vegar stórkostlega vanmetin. Stjórnvöld, fyrirtækjaeigendur og almenningur þurfi að huga að framtíðinni. „Störf munu tapast,“ sagði hún og vísaði til þess að talið væri að 22 til 42 þúsund störf verði tækniþróun að bráð í Svíþjóð á næstu tíu árum. Á sama tíma verða netviðskipti algengari en hefðbundin. Samt sem áður eru 2,6 milljónir nýrra fermetra fyrirhugaðir undir verslunarmiðstöðvar í Svíþjóð. „Hvað er í gangi?“ spurði hún.

Anna segir að raunverulegt verðmat á tæknibyltingunni hafi ekki farið fram. Þessar breytingar muni meðal annars hafa mikil áhrif á landsframleiðslu og vísaði hún til tímasparnaðar sem fylgir netviðskiptum. Gríðarleg verðmæti séu í því fólgin.

Mikil ábyrgð hvílir á stjórnmálamönnum í dag, að sögn Önnu, sem þurfa að tryggja að almenningur geti aðlagast breyttu umhverfi. Starfsgreinar eru í mismikilli hættu og huga þarf að því að fólk geti leitað nýrra leiða. 

Hlutur netverslana á einungis eftir að aukast.
Hlutur netverslana á einungis eftir að aukast. mbl.is/Styrmir Kári

Verslunarstörf í bráðri hættu

Hefðbundin verslunarstörf eru í einna mestri hættu á að verða tækni að bráð. Eru að sögn Önnu um 92% líkur á því að hefðbundið afgreiðslustarf í verslun víki fyrir tækni á næstu árum.

Um tveir þriðju hluti sænskra verslana eru með vefverslanir og Anna benti á að hlutfallið komi einungis til með að aukast. Eigi viðskiptavinir að taka ferð í verslun fram yfir þægindin við netviðskipti þurfi eitthvað mikið til. Hvetur hún verslunareigendur til þess að nýta sér tæknina með stafrænum lausnum og nefndi sem dæmi að hægt væri að bjóða upp á prufuhlaup í íþróttaskóm í sýndarveruleika. Margar sambærilegar lausnir væru í boði.

Þá ættu fyrirtæki einnig að huga að samstarfi. Samstarfi einstakra fyrirtækja og mismunandi geira. Nefndi hún sem dæmi banka sem fer í samstarf með leikjafyrirtæki og þróar tölvuleik til að kenna börnum á sparnað. Þessi framþróun sé nauðsynleg til þess að halda samkeppnishæfni.

Hefðbundin verslunarstörf eru í einna mestri hættu á að verða …
Hefðbundin verslunarstörf eru í einna mestri hættu á að verða tækni að bráð vegna vaxandi hlutar netverslunar. AFP

Þörf á endurskoðun á regluverki

Nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld að fylgja þróuninni og endurskoða regluverkið í hverjum geira. Þar væri meðal annars hægt að leita góðra fyrirmynda í Svíþjóð. Mikilvægt sé að taka hvern geira sérstaklega fyrir þar sem almenningur sé misjafnlega tilbúinn fyrir tækniþróun á hverju sviði.

Nefndi hún sem dæmi deilihagkerfið og benti á andstöðuna sem Uber hefur mætt sökum þess að bílstjórar séu leyfislausir. Hins vegar virðist fólk frekar tilbúnara að leigja íbúðir í gegnum Airbnb án þess að þær séu vottaðar af yfirvöldum. Þetta þurfi að leggja sérstakt mat á hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK