Efnisveiturnar Netflix og Spotify greiða skatta á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. Bæði fyrirtækin eru skráð í VSK-skrá í gegnum íslenskan umboðsmann. Netflix var skráð 1. janúar 2016 en fyrirtækið opnaði fyrir þjónustu sína í sama mánuði.
Í tilkynningu frá FRÍSK, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, í vikunni kom fram að þessar erlendu efnisveitur stæðu ekki skil á sköttum og gjöldum hér á landi. Íslenskum fyrirtækjum væri þannig ókleift að keppa á jafnræðisgrundvelli við erlendu þjónustuna.
Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra er þetta ekki rétt. Virðisaukaskattur er innifalinn í verði þjónustunnar hér á landi.
Eru báðar þjónustur í efra þrepi virðisaukaskatts sem stendur í 24%. Mánaðaráskrift af Netflix kostar 7,99 til 11,99 evrur, eða 955 til 1.434 krónur. Er virðisaukaskattur af hverri áskrift þannig 184 til 277 krónur. Mánaðaráskrift að Spotify kostar 9,99 evrur og er virðisaukaskatturinn því 231 króna.
Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir FRÍSK eru 44% íslenskra heimila með áskrift að Netflix. Heimili landsmanna eru alls um 125 þúsund talsins og má því áætla að um 55.000 heimili séu með Netflix-áskrift. Samkvæmt því er 10 til 15 milljóna króna virðisaukaskattur innheimtur mánaðarlega af Netflix. Nemur upphæðin 121 til 182 milljónum króna á ári áður en mögulegur frádráttur er reiknaður.
Fyrirtækin þurfa hins vegar bara að greiða skatta af tekjum sínum hér á landi í heimalandi sínu sökum tvísköttunarsamninga.