Vangaveltur hafa verið um verslunina sem verður opnuð við hliðina á H&M í Kringlunni og rætt hefur verið um „leynibúðina“ í því samhengi. Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir að Next verði færð um set og opnuð þarna í minna rými.
Lausa verslunarplássið færist því yfir í núverandi rými Next og að sögn Sigurjóns standa viðræður við nokkur fyrirtæki yfir. „Það er heilmikil hreyfing í gangi í tengslum við þessar breytingar en þetta er það sem núna stendur fyrir dyrum og búið er að samþykkja,“ segir hann.
Nýtt rými Next er um 1.000 fermetrar en núverandi verslun er um 2.000 fermetrar. Ljóst er því að Next minnkar um helming. Verða samt allar deildir verslunarinnar áfram til staðar; Karla-, kvenna- og barnadeild.
Nýja plássið er við hliðina á H&M, þar sem Hagkaup var áður, á annarri hæð Kringlunnar. H&M tekur þar 2.600 fermetra en Next 1.000 fermetra.
Sigurjón segir mikinn áhuga vera fyrir núverandi verslunarplássi Next þar sem um stóra einungu er að ræða. „Það er frekar sjaldgæft að það losni um svona stór pláss í húsinu,“ segir hann en vill þó ekki gefa þá áhugasömu upp.
Spurður um samningaviðræðurnar segir hann að um erlendar keðjur sé að ræða. „Íslendingurinn þekkir mikið af þessum merkjum og við eltumst nú við að finna línur sem við þekkjum og erum hrifin af. Það er öllum til framdráttar.“ Bæði standa yfir viðræður við verslunarkeðju sem þegar er á Íslandi en er að taka breytingum og við aðrar sem ekki eru á íslenska markaðnum.
„Þegar H&M tekur ákvörðun um að koma inn á íslenskan markað eykur það áhuga annarra erlendra aðila á íslenska markaðnum,“ segir Sigurjón. Þess fyrir utan sé íslenskur markaður einnig mjög kaupsterkur. „Sala á hvern fermetra hér er tiltölulega há samanborið við nágrannalöndin til að mynda. Það hefur alltaf verið áhugavert. En það er auðvitað alltaf ákveðið flækjustig að koma inn á svona lítinn markað þar sem menn vilja vaxa,“ segir hann og vísar til þess að erlend stórfyrirtæki ákveði því stundum að gefa sérleyfi fyrir opnun verslunar hér á landi, líkt og til dæmis Lindex, Zara og Next á Íslandi. H&M og Dressman eru helstu undantekningarnar frá þessu þar sem erlendu keðjurnar sjá sjálfar um reksturinn.
Spurður hvort nýja verslunin sé tengd H&M segir Sigurjón að margt sé til skoðunar en að best sé að segja sem minnst um efnið.