Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir einkaframtakið mæta allt of neikvæðu viðhorfi í dag. Á sama tíma hefðum við fjölmörg dæmi þess að einkaaðilar gætu unnið góð verk og nefndi hann Ísaksskóla í því samhengi.
Þetta kom fram í erindi Bjarna á ársfundi SA í dag. Bjarni vísaði með þessu til fyrra erindis Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi formanns SA, þar sem hann sagði það vera „makalaust að hugmyndafræðileg afstaða skuli koma í veg fyrir að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir.“
Bjarni nefndi einnig útboðsfyrirkomulag í vegamálum þar sem einkafyrirtækjum er falin verkefnin. Þá væri lyfsölum treyst fyrir því að afgreiða lyf á sama tíma og kaupmönnum sé ekki treyst fyrir öðrum vörum.
„Þetta mætir óvenju miklum mótbyr og ég lýsi yfir áhyggjum af því,“ sagði Bjarni og bætti við að miðað við núverandi andrúmsloft ættu líklega margar af þeim þjónustum sem áður voru nefndar erfitt uppdráttar.
Segir Bjarni að hugarfarsbreyting sé nauðsynleg. Annars sé hætta á því að opinbert fé verði ekki nýtt nægilega vel.