Greiningardeild Arion banka telur að Íslendingar séu staddir á hápunkti hagsveiflunnar og að leiðin liggi niður á við. Þrátt fyrir að hagvöxtur teljist áfram góður mun draga úr á næstu árum og verður umhverfið líkara því sem er í nágrannaríkjum.
Á síðasta ári mældist 7,2% hagvöxtur á Íslandi og í nýrri hagspá Greiningardeildar Arion er gert ráð fyrir 5,9% vexti á þessu ári. Þá er talið að vöxturinn temprist enn frekar þegar á líður og verður hann 3% árið 2018 samkvæmt spánni.
Erna Björg Sverrisdóttir í Greiningardeild Arion kynnti hagspána og sagði hún útlit fyrir að toppnum hafi verið náð í fyrra. Erna benti á að krónan hefði styrkst verulega á síðasta ári og telur greiningardeildin forsendur fyrir frekari gengisstyrkingu á þessu ári, mögulega um 4-5% frá núverandi gengi. Hins vegar muni hægja á styrkingunni á næsta ári og draga síðan úr.
Þá er spáð meiri einkaneysluvexti í ár en var í fyrra. Á síðasta ári óx kaupmáttur meira en einkaneysla og hefur þjóðhagslegur sparnaður rokið upp. Þetta er nokkuð sérstök þróun á Íslandi en er þó svipuð því sem verið hefur á öðrum Norðurlöndum. Heimilin hafa því svigrúm til að auka einkaneyslu að sögn greiningardeildarinnar með því að ganga á sparnað eða auka skuldsetningu. Erna sagði greiningardeildina þó ekki treysta sér í að svara hvort heimilin muni í raun gera það; Það sé spurning fyrir sálfræðinga fremur en hagfræðinga.
Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka og er því ekki útlit fyrir að losna muni um spennuna á vinnumarkaði í bráð.
Greiningardeildin gerir ráð fyrir um 19% vexti fjárfestingar í ár og spilar atvinnuvegafjárfesting þar stórt hlutverk sökum mikilla fjárfestinga í stóriðju, raforkuframleiðslu, skipum og flugvélum. Einnig er gert ráð fyrir kröftugum vexti íbúðafjárfestingar. Árstakturinn í hækkun á húsnæðisverði er kominn upp í 18% og eykur það hvatann fyrir nýfjárfestingu að sögn Greiningardeildar Arion. Erna benti á að auk þess hefði skapast þrýstingur í samfélaginu um að flýta framboðsaukningu á nýbyggingum og auka við framboðið.
Verðbólga hefur haldist undir markmiði í þrjú ár. Gengi krónunnar hefur styrkst, innlendar vörur hafa lækkað í verði og hefur það vegið á móti innlendum verðbólguþrýstingi. Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir að verðbólgan muni stíga árið 2018 og verða þá rétt um markmið Seðlabanka Íslands. Þá er gert ráð fyrir að verðbólgan aukist frekar árið 2019 og verði þá í kringum 4%. Erna benti á að verðbólga í helstu viðskiptalöndum muni hækka og að krónan myndi líklega ekki styrkjast mikið á næsta ári. Innfluttar vörur gætu því hækkað í verði. Þrátt fyrir vaxandi verðbólgu gerir Greiningardeildin ráð fyrir vaxtalækkun á þessu ári.