Þrátt fyrir að finna megi góð rök fyrir þéttingu byggðar er hennar helsti óvinur uppsöfnuð húsnæðisþörf á markaðnum. Það tekur helmingi lengri tíma og helmingi dýrara er að byggja á þéttingarsvæðum. Við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að standa að fjölbreyttri uppbyggingu.
Þetta kom fram í máli Almars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, á fundi um húsnæðismarkaðinn hjá Íbúðalánasjóði í dag. Almar benti á gríðarlegan mun á lóðaverði á þéttingarsvæðum og utan þeirra. Lóðaverð á Laugavegi er til dæmis um 55% af söluverði og á öðrum þéttingarsvæðum í Reykjavík er það 38%. Í úthverfum er hlutfallið 13%.
Almar benti á að ungu fólki sem ennþá býr í foreldrahúsum hafi fjölgað um 60% á síðustu níu árum. Árið 2005 bjuggu 10% einstaklinga á aldrinum 25 til 34 hjá foreldrum en árið 2014 var hlutfallið komið í 14%. Skortur á húsnæði og hátt verð sé helsta skýringin á þessu. Hann segir mikilvægt að húsnæðisþörf ungs fólks verði mætt með hagkvæmum hætti.
Samkvæmt tölum um húsnæðisframkvæmdir hjá Reykjavík og nágrannasveitafélögum eru málin að þróast í rétta átt en Almar telur þó óraunhægt að jafnvægi verði komið á markaðinn eftir þrjú til fjögur ár.
Hann bendir á að þröngur hópur fólks hafi efni á að kaupa íbúðir á þéttingarsvæðum og spyr hvort verið sé að ýta ungu fólki út fyrir höfuðborgarsvæðið.
Til einföldunar setti Almar málið upp í einfalt dæmi og benti á að árlega fæðast 4.500 manns á Íslandi og 2.00 manns deyja. Eftir 20 til 25 ár hjá hverri kynslóð komi fram þörf fyrir íbúðahúsnæði. Samkvæmt þessu þurfi að lágmarki að koma 1.600 nýjum íbúðum á markaðinn á hverju ári. Jafngildir þetta því að afhenda þurfi sex til sjö nýjar íbúðir á hverjum virkum degi eða sem jafngildir einum stigagangi í fjölbýlishúsi.
Þetta sé á sama tíma og enn eigi eftir að uppfylla uppsafnaða þörf vegna lítillar uppbyggingar á árunum 2009 til 2014.
Ef aðaláhersla verði lögð á þéttingu byggðar verði þörfinni mætt síðar en ella. Fjölbreytni sé nauðsynleg í núverandi ástandi.