Guðmundur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Subway á Íslandi, segir fyrirtækið hafa komið gögnum til lögreglu eftir að sterkar grunsemdir vöknuðu um að starfsmaður hefði brotið af sér. „Hún rannsakar málið og niðurstaðan er að nægilegar sannanir séu til ákæru,“ segir Guðmundur.
Dómur sem féll í Héraðsdómi Suðurlands í gær hefur vakið töluverða athygli. Þar var fyrrverandi verslunarstjóri á Subway sýknaður af ákæru um fjárdrátt. Henni var gefið að sök að hafa tekið fé úr peningakassa veitingarstaðarins auk þess að hafa gefið eiginmanni sínum Subway-bát og gos að verðmæti 1.568 krónur. Alls var hún krafin um 12.589 krónur.
Konan bar því við að hún hefði eytt sölufærslum úr kassanum þar sem hann átti það til að frjósa. Þetta hafi verið leið til að laga vélina. Vitni komu fyrir dóminn og staðfestu þetta. Þá sagðist hún hafa gefið eiginmanni sínum máltíðina að launum eftir að hafa fengið hjálp við að laga grillofn staðarins. Þetta hafi verið gert eftir ráðleggingar frá gæðastjóra.
Konan var sýknuð af ákærunni þar sem ekki þótti sannað að hún hefði dregið að sér fé auk þess sem vitni báru því við að heimilt hafi verið að umbuna utanaðkomandi fólki fyrir aðstoð á staðnum. Var hún því ekki heldur dæmd til greiðslu máltíðarinnar.
Allur kostnaður vegna málsins féll á ríkissjóð. Þar með talin málsvarnarlaun verjanda að fjárhæð 908.758 krónur og aksturskostnaður er nemur 59.852 krónum.
Konunni var vikið úr starfi vegna málsins en aðspurður segir Guðmundur að henni verði ekki boðið starfið aftur í ljósi sýknudómsins.
Spurður um fjárhæðir málsins ítrekar Guðmundur að í dómnum komi einungis fram þær fjárhæðir sem lögregla taldi unnt að sanna og ákært hafi verið fyrir.
Hann segir málið ekki einungis snúast um það sem kemur fram í fyrirsögnum en vill að öðru leyti ekki tjá sig um einstök mál.
Hér má lesa dóminn.