Fyrrverandi stjórnarmaður í Samvinnutryggingum fullyrðir að þóknun Samvinnutrygginga vegna ráðgjafa franska bankans Société Général við kaupin á Búnaðarbanka árið 2003 hafi verið greidd til félags í eigu Ólafs Ólafssonar í Lúxemborg.
Þetta kom fram í Fréttablaðinu en Benedikt Sigurðarson, fyrrverandi stjórnarmaður í Samvinnutryggingum, segir að stjórn félagsins hafi ekki haft neitt fast í hendi varðandi aðkomu bankans; eina sem hafi legið fyrir voru óundirrituð og ódagsett drög að bréfi.
„Það kemur fram í skýrslu nefndarinnar að um hafi verið að ræða 300 milljónir um það bil,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is og á þá við þóknun Ólafs Ólafssonar þegar ríkið seldi hlut í Búnaðarbankanum fyrir 14 árum.
Benedikt segir að annar stjórnarmaður hafi staðfest greiðslur til félagsins í Lúxemborg. Benedikt hafi upphaflega leitað upplýsinga hjá fyrrverandi framkvæmdastjóra Samvinnutrygginga. „Síðan kom fram skýring í ársreikningi á aðalfundi Samvinnutrygginga árið 2003,“ segir Benedikt.
Hann hafi spurt hvers vegna franski bankinn hafi ekki fengið greiðslu og fengið þau svör að Ólafur Ólafsson hafi verið milligöngumaður.
Aðspurður hvers vegna málið hafi ekki verið stærra á sínum tíma, fyrst ákveðnir aðilar hafi haft vitneskju um þetta, bendir Benedikt á áhugaleysi stjórnvalda. „Ráðherra á þeim tíma og næsti ráðherra á eftir hafði ekki neinn áhuga á því að kanna þetta mál nánar. Alþingi hafði lengi vel takmarkaðan áhuga á því að kanna málið,“ en framsóknarkonan Valgerður Sverrisdóttir var iðnaðar- og viðskiptaráðherra við sölu Búnaðarbankans.
„Einu gögnin sem lágu fyrir, eða virðast hafa legið fyrir hjá stjórn Samvinnutrygginga þgar þau voru að taka ákvörðun, var óundirritað og ódagsett drög að bréfi,“ segir Benedikt. Í skýrslu Lagastofnunnar Háskóla Íslands um starfssemi Samvinnutrygginga kemur þetta fram; „Lögð voru fram drög að bréfi frá Societé Generale til Kers hf. ódagsett og óundirritað.“
Margeir Daníelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, sem tók þátt í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum árið 2003, kannast ekki við að þóknun hefði farið inn á reikning Ólafs.
„Ég kannast ekki við það að það hefði farið inn á reikning Ólafs Ólafssonar. Ég man ekki nákvæmlega þessa hluti, öll þessi ár aftur í tímann. Þetta var aldrei neitt stórmál hjá okkur, þó okkur fyndist upphæðin há,“ segir Margeir.
Aðspurður segir Margeir að skýrsla rannsóknarnefndar hafi komið sér á óvart. „Þetta kom mér á óvart vegna þess að ég var staðfastur í því að bankinn hefði komið heiðarlega inn í þetta. Ég talaði við Þjóðverjana og þeir sögðu alltaf að þeir yrðu ekki hluthafar lengi. Ég varð ekki var við nokkurn skapaðan hlut.“