Vilja pundið frekar en evruna

AFP

Seðlabankar eru í vaxandi mæli að losa sig við evrur og kaupa bresk pund í staðinn. Þetta kemur fram í frétt breska viðskiptablaðsins Financial Times. Ástæðan er sögð vera pólitískur óstöðugleiki innan Evrópusambandsins, lítill hagvöxtur á evrusvæðinu og vaxtastefna Evrópska seðlabankans. Þess í stað líta þeir á pundið sem stöðugan valkost til langs tíma segir í fréttinni.

Vísað er í könnun sem bendi til þess að seðlabankar um allan heim líti á Bretland sem öruggari höfn fyrir gjaldeyrisforða sína en evrusvæðið þrátt fyrir að bresk stjórnvöld hafi á dögunum formlega tilkynnt um úrsögn landsins úr Evrópusambandinu.

Könnunin, var birt í byrjun vikunnar og framkvæmd af útgáfufyrirtækinu Central Banking Publications og breska bankanum HSBC, náði til framkvæmdastjóra gjaldeyrismála hjá 80 seðlabönkum. Þar kemur fram að skortur á stöðugleika á evrusvæðinu væri að þeirra mati helsta áhyggjuefni í efnahagsmálum heimsins á þessu ári.

Sumir seðlabankar losað sig alfarið við evrur

Fram kemur í niðurstöðum könnunarinnar að sumir af þátttakendur hafi losað sig alfarið við evrur úr gjaldeyrisforða sínum á meðan aðrir höfðu fært fjárfestingar sínar í evrum niður í algert lágmark.

Seðlabankar í þróunarríkjum og nýmarkaðsríkjum, sem eru á meðal þeirra sem eiga mestan gjaldeyrisforða, voru líklegri en seðlabankar í þróuðum ríkjum til þess að hafa snúið baki við evrunni segir ennfremur í fréttinni.

Sú ákvörðun Bretlands að segja skilið við Evrópusambandið hefur ekki dregið úr vinsældum pundsins sem fjárfestingagjaldmiðils enn sem komið er en 71% svarenda sögðu úrsögnina úr sambandinu ekki hafa varpað skugga á pundið til lengri tíma.

Kjör Trumps ekki haft áhrif á afstöðu til dollarans

Engu að síður myndu þeir fara varlegar í fjárfestingar í pundum til skamms tíma. Könnunin leiðir hins vegar í ljós að margir svarenda telja að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu muni skapa ný tækifæri til þess að dreifa fjárfestingum þeirra frekar í framtíðinni.

Tæplega 80% svarenda sögðu kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna ekki hafa haft áhrif á heildarafstöðu þeirra til dollarans. 

Rúmlega þriðjungur sögðust áhyggjur sínar af evrusvæðinu væru tilkomnar vegna pólitísks óstöðugleika innan Evrópusambandsins þar sem stjórnmálaflokkar andvígir sambandinu hafa náð góðum árangri í kosningum á undanförnum árum.

Vaxtastefna Evrópska seðlabankans var einnig nefnd til sögunnar en stýrivestir bankans hafa í raun verið neikvæðir frá árinu 2014 í þeim tilgangi að reyna að auka hagvöxt innan evrusvæðisins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK