Íslendingar ættu að efla lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu. Bæði hefur það góð áhrif á nærumhverfið og bætir upplifun ferðamanna sem sækjast eftir því sem er ekta. Þetta segir Kosta Ríkabúinn Roberto Artavia Loria sem hefur tekið út ferðaþjónustu landsins með mælitækjum vísitölu félagslegra framfara en verkefnið var verðlaunað af Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna í janúar á þessu ári. Loria verður með fyrirlestur um efnið á What Works ráðstefnunni í Hörpu 24. apríl.
Kosta Ríka og Ísland virðast kannski eiga fremur lítið sameiginlegt við fyrstu sýn en líkt og hér á landi hefur ferðaþjónustan þar farið í gegnum ævintýralegt vaxtaskeið. Ferðamönnum í Kosta Ríka fjölgaði að meðaltali um 14% á ári frá 1986 til 1994. Árið 1988 komu 329 þúsund ferðmanna til landins og var sú tala komin í tæplega 2,7 milljónir árið 2015. Er ferðaþjónustan undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og hefur engin grein aflað meira af erlendum gjaldeyri fyrir þjóðarbúið frá árinu 1995.
Á sama tíma tókst þó Kosta Ríka að verða fyrirmyndaland í sjálfbærri ferðamennsku en um helmingur þeirra sem heimsækja landið taka þátt í einhvers konar umhverfisferðamennsku (e. ecotourism).
Vísitala félagslegra framfara eða „Social Progress Index“ má rekja til greinarinnar „Mismeasuring Our Lives: Why GDP Doesn't Add Up“ frá árinu 2010 eftir hagfræðingana Joseph Stiglitz, Amartya Sen og Jean-Paul Fitoussi en þeir tveir fyrrnefndu hafa m.a. hlotið nóbelsverðlaun fyrir störf sín á sviði hagfræði. Í grunninn segir greinin að mikilvægar upplýsingar um það sem raunverulega á sér stað í samfélaginu fari fram hjá þeim sem einungis horfir á hefðbundnar hagstæðir. Ný mælitæki séu nauðsynleg til þess að þjóðir geti tekið betri og upplýstari ákvarðanir.
Hópur fræðimanna undir merkjum Social Progress Imperative svaraði kallinu og setti vísitölu félagslegra framfara saman. Vísitalan er nú reiknuð út árlega fyrir 133 lönd í hinum ýmsu heimsálfum og 272 svæðum innan Evrópusambandsins. Hún mælir hversu vel tekist hefur til við að tryggja íbúum aðgengi að grunnþörfum, almenna velferð og tækifæri til betra lífs. Meðal þátta sem teknir eru inn í vísitöluna eru aðgengi að heilsugæslu, menntun og hagkvæmu húsnæði sem og staða jafnréttismála og trúfrelsis.
Líkt og áður segir hefur Loria tekið út ferðaþjónustuna í Kosta Ríka með þessa vísitölu að leiðarljósi og telur hann að Íslendingar mættu einnig horfa til þess. Í samtali við mbl bendir Loria á að stór hluti Kosta Ríka sé verndað landsvæði. Mikil áhersla er lögð á umhverfisvernd og stefnir landið á að verða kolefnislaust árið 2021. Kosta Ríka er í öðru sæti á eftir Nýja Sjálandi í umfangi sjálfbærrar ferðamennsku og ferðamenn dvelja að meðaltali næstlengst í Kosta Ríka á eftir Nýja Sjálandi.
„Við áttuðum okkur á nauðsyn þess að kafa dýpra þegar við vorum að setja saman næstu kynslóð stefnumótunar í ferðaþjónustu. Við þyrftum að stuðla að sjálfbærni og félagslegri þróun á sama tíma. Þess vegna verð vísitala félagslegrar framfara mjög mikilvægur þáttur ferðaþjónustunnar,“ segir Loria.
„Í allri okkar áætlanagerð í dag horfum við ekki einungis til þess hvernig sé hægt að lokka fleiri ferðamenn til landsins og hversu mikla atvinnu það muni skapa heldur einnig hvernig tengslin verða á milli mismunandi greina. Þá skoðun við hvernig þjálfun við þurfum að veita fólki í þessum greinum til þess að það geti gripið tækifærin og þannig er stuðlað að félagslegum framförum í leiðinni,“ segir hann. „Á sama tíma og þetta er gert endurskoðar ríkisstjórnin sína stefnu í húsnæðis-, mennta- og heilbrigðismálum. Allt til þess að tryggja flæði og tengsl þarna á milli,“ segir hann.
Loria segir að dæminu verði hvað best lýst með líffræðingi sem starfar einnig sem leiðsögumaður. Hann getur þannig leiðbeint ferðamönnum um frumskógana í Kosta Ríka og sinnt sínu starfi í leiðinni. Með þessum hætti vafra ferðamenn ekki um eftirlitslausir heldur skoða þeir staðinn með heimamanni og komast í samskipti við hann. Þessi samskipti segir Loria einmitt vera þau mikilvægustu fyrir ferðamenn.
Kosta Ríka er með 34 skilgreinda ferðaþjónustuklasa víðs vegar um landið; sumir við strandlengjur og aðrir í fjöllum. Vísitölunni er beitt sérstaklega á hverju svæði fyrir sig og skoðað er hvernig ferðaþjónustan skilar sér í framförum á svæðinu. Loria segir gríðarlega mikilvægt að gæta þess að lítil og meðalstór fyrirtæki þrífist á þessum svæðum. „Ferðamanninum finnst þá ekki eins og hann sé í Disney World þar sem allt er búið til. Þetta er ekta á allan hátt. Þarna býr fólk og þessi samskipti við heimamenn eru raunveruleg. Við sáum frekar fljótt að svæðin upp til fjalla voru að fá bestu einkunnina í okkar mælingum. Þetta var vegna lítilla fyrirtækja sem voru þar,“ segir Loria.
„Þegar þú ferð aftur á móti niður við ströndina erum við með stórar keðjur á borð við Marriott, Four Seasons og fleiri, sem eru auðvitað líka mikilvæg, en þá urðu samskiptin við heimamenn miklu minni,“ segir hann.
„Þess vegna erum við núna að breyta stefnu okkar og hvetja þessar stóru keðjur til að opna á sambönd við heimamenn og auka þannig ánægju og bæta reynslu ferðamanna. Á sama tíma bætum við áhrif ferðaþjónustunnar á nærsamfélagið,“ segir Loria.
Hann segir þetta vera eitthvað sem Íslendingar ættu að huga að. „Þegar fyrirtækin sem eru að eiga samskipti við ferðamenn verða fjölbreyttari og fleiri gerist þrennt. Í fyrsta lagi skapar þetta atvinnu og í öðru lagi bætir þetta þjónustustig þar sem ferðamenn eru oft með háar væntingar sem fyrirtæki þurfa að mæta. Í þriðja lagi skapar þetta góðar tengingar út í samfélagið,“ segir hann og bætir við að hver einasti ferðamaður verði verðmætari með þessum hætti.
Loria telur að Íslendingar gætu að aðlagað vísitöluna að eigin hagkerfi og horft þannig til framangreindra félagslegra þátta við mat á áhrifum ferðaþjónustunnar jafnt sem hagstærðanna sem túrismanum fylgja. „Þannig er hægt að skapa nytsamlega áætlun fyrir sjálfbæran vöxt. Þegar hagvöxtur eykst getur það þýtt að það er bara gott árferði í einni grein en hefur ekki endilega áhrif á aðra. Með þessu er hægt að tryggja áætlun um að landið vaxi áfram.“
Hann bendir á að ferðaþjónustan sé þegar orðin mikilvæg atvinnugrein á Íslandi og telur að vægi hennar eigi einungis eftir að aukast. „Ég held að það séu mikil tækifæri til framfara en þið þurfið að kunna að stíga á bremsuna og huga að því hversu marga ferðamenn þið viljið fá. Þið viljið kannski ekki fá 20 milljónir en þið viljið 1 milljón. Þess vegna þarf að trygga að hver og einn ferðamaður skili sem mestu og sé verðmætur. Bæði að hann dvelji lengur og skili meiru til hagkerfisins. Það þarf að tryggja að þetta sé gert í gegnum lítil og meðalstór fyrirtæki.“
Til þess að tryggja viðhald og sjálfbærni við náttúruperlur í Kosta Ríka segir Loria einnig að tekið sé gjald sem er mishátt fyrir heimamenn og ferðamenn. Er algengt að það kosti 4 Bandaríkjadali fyrir heimamenn að skoða þjóðgarða en 25 Bandaríkjadali fyrir ferðamenn. Auk þess séu einnig fjöldatakmarkanir á sérstaklega viðkvæmum svæðum.