Kaupverð Haga á Lyfju hefur verið lækkað um fimmtíu milljónir króna samhliða því að fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar var aflétt. Hagar keyptu Lyfju af íslenska ríkinu fyrir 6,7 milljarða króna í nóvember en Samkeppniseftirlitið á þó enn eftir að samþykkja kaupin. Verðlækkunin er innan við eitt prósent.
Í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar segir að vænta megi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í síðasta lagi í júlí.
Þar segir einnig að stjórn Haga hafi ákveðið að taka til skoðunar að selja Heilsu, dótturfélag Lyfju, gangi kaupin eftir.